Viðskiptablaðið ákvað að taka saman hvað mögulega væri hægt að fá fyrir ýmis fyrirtæki og eignir sem eru í eigu ríkisins en falla ekki undir kjarnastarfsemi þess. Við þá útreikninga er í flestum tilfellum miðað við bókfært virði eiginfjár þegar verðmiðinn er fundinn en í nokkrum þeirra er stuðst við reikningsaðferðir greiningaraðila eða kaupverð á sambærilegum fyrirtækjum. Niðurstaðan er sú að ríkið gæti, miðað við þær forsendur sem Viðskiptablaðið styðst við, selt eign sína í fjármála- og orkufyrirtækjum, lánasjóðum, verslunarog þjónustufyrirtækjum og húsum/ mannvirkjum fyrir 483,5-836 milljarða króna.

Orkufyrirtæki: Skila mestu í ríkiskassann

Ein verðmætasta eign ríkisins er orkufyrirtækið Landsvirkjun. Eignir þess eru metnar á 545,6 milljarða króna í ársreikningi 2010 þegar það hagnaðist um 8,9 milljarða króna. Eiginfjárstaðan er líka firnasterkt, 185,5 milljarðar króna. Þegar Magma Energy, nú Alterra Power, seldi 5% hlut sinn í orkufyrirtækinu HS Orku fyrr á þessu ári var það gert fyrir tæplega tvisvar sinnum virði eiginfjár fyrirtækisins. Því hefur Viðskiptablaðið ákveðið að ríkið gæti fengið 1-2 krónur fyrir hverja krónu eiginfjár í orkufyrirtækjum sínum, sem gæti skilað 185,5-371 milljarði króna til ríkissjóðs ef allur hluturinn í Landsvirkjun yrði seldur.

Rarik verðmætt

RARIK ohf er í 100% eigu ríkisins. Eignir fyrirtækisins eru metnar á 2,5 milljarða króna og það hagnaðist um 2,5 milljarða króna í fyrra. Eigið fé var 18,4 milljarðar króna um síðustu áramót. Því gæti ríkið fengið 18,4-36,8 milljarða króna fyrir RARIK. Ríkið á einnig 100% hlut í Orkubúi Vestfjarða. Eignir þess fyrirtækis eru metnar á 5,6 milljarða króna og það skuldar lítið sem ekkert. Eiginfjárstaðan er því jákvæð um 4,9 milljarða króna. Orkubúið gæti því selst fyrir 4,9- 9,8 milljarða króna. Að lokum ætti eitthvað að fást fyrir sjálfstæðu ríkisstofnunina Íslenskar Orkurannsóknir (ÍSOR) sem sinnir rannsóknum á svið náttúrufars, orkumála og annarra auðlindamála. Stofnunin starfar á viðskiptalegum grundvelli og aflar sér tekna meðal annars með sölu á rannsóknum, ráðgjöf og þjónustu. Eigið fé ÍSOR var 366 milljónir króna um síðustu áramót og því ætti sala á fyrirtækinu að geta skilað 366-732 milljónum króna í ríkiskassann miðað við ofangefnar forsendur.

»» Sala á eignum í orkuiðnaði: 209,2-418,4 milljarðar króna.

Nánar er fjallað um virði eigna hins opinbera í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.