Friðjón R. Friðjónsson, annar eigenda KOM ráðgjafar, segir að það orð sem almannatenglar hafa sumir á sér sé ósanngjarnt og byggi á misskilningi.

„Einhver sagði í gríni að almannatenglar fengju alla virðinguna sem eiturlyfjasalar fá, en ekkert af peningunum. Þetta er vissulega ýkt, en ég tel að í þessu felist ákveðinn sannleikur. Sumir virðast halda að almannatenglar hafi það hlutverk eitt að plata blaðamenn og neytendur fjölmiðla í þágu illa innrættra fyrirtækja. Ef einhver vinnur á þessum nótum er hann ekki að gera sér eða skjólstæðingi sínum neinn greiða.

Grundvallaratriði í allri þessari vinnu er heiðarleiki, bæði gagnvart skjólstæðingnum og gagnvart blaðamanni og almenningi. Til lengri tíma litið kemst upp um allar lygar og því er sannleikurinn alltaf allra sagna bestur. Oft snýst okkar ráðgjöf einmitt um að sannfæra stjórnendur um að þeir eigi að koma fram með allan sannleikann í viðkomandi máli og draga ekkert undan. Góður almannatengill þekkir líka blaðamenn vel og veit hvað þeir þurfa og getur því verið mjög mikilvægur bandamaður blaðamanna.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .