Samkvæmt ársreikningi starfsendurhæfingarsjóðsins VIRK fyrir árið 2013 nam afkoma hans rúmum 775 milljónum króna en hún nam um 411 milljónum árið áður. Varasjóður VIRK var jákvæður um 2,3 milljarða króna en var um 1,5 milljarðar árið á undan.

Að sögn Vigdísar Jónsdóttur, framkvæmdastjóra VIRK, er varasjóðurinn til þess ætlaður að taka á móti ýmsum breytingum sem geta orðið í starfsemi sjóðsins.

„VIRK hefur samkvæmt lögum ábyrgð á að veita þjónustu til einstaklinga og við erum með 2.400 manns í þjónustu núna. VIRK er hins vegar ekki ríkisstofnun og varasjóðurinn er hugsaður til þess að taka á móti ýmsum breytingum sem geta hugsanlega orðið í slíkri starfsemi. Við berum ábyrgð samkvæmt lögum en það er ekki ríkisábyrgð á þjónustunni sem slíkri. Þannig er varasjóðurinn nauðsynlegur til að geta staðið við okkar skuldbindingar ef það verða breytingar á starfsemi okkar. Ríkið hefur ekki lagt krónu í varasjóðinn þannig að það að gera athugasemdir við hann er svolítið sérstakt,“ segir Vigdís.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .