Vísitala framleiðsluverðs hækkaði um 0,8% í janúar í Bandaríkjunum og er það áttundi mánuðurinn í röð sem vísitala þessi hækkar vestra en ráðuneyti atvinnumála birti vísitöluna í gær. Hækkunin rímaði við meðalspá sérfræðinga sem Bloomberg-fréttaveitan hafði rætt við en að sögn Bloomberg er það öðru fremur það eldsneytisverð sem verður til hækkunar vísitölunnar.

Kjarnavísitalan, sem ekki inniheldur matar-og eldsneytisverð, hækkaði um 0,5% í janúar og hefur hún ekki hækkað jafnmikið síðan í október 2008. Nýmarkaðshagkerfi Asíu og Rómönsku Ameríku þrýsta upp eftirspurn eftir matvælum og eldsneyti en að sögn Bloomberg er hækkunin einnig til marks um að iðnaður vestanhafs sé að ná vopnum sínum á ný í kjölfar efnahagslægðar undanfarinna ára.