Viðskiptaráðuneytið hefur farið þess á leit við fjármálaráðuneytið að umsjá með lífeyrissjóðunum færist frá því síðarnefnda til hins fyrrnefnda. Fyrstu þreifingar í þessa veru fóru fram síðastliðið sumar og eru enn ekki komnar í formlegan farveg, en að sögn Jóns Þórs Sturlusonar, aðstoðarmanns viðskiptaráðherra, standa vonir til að hægt verði að hefja viðræður þar að lútandi innan skamms.

"Það hefur verið afstaða okkar að betur færi á að eitt ráðuneyti færi með eftirlitshlutverk á fjármagnsmarkaði. Fjármálaeftirlitið hefur bæði eftirlit með fjármálafyrirtækjum og lífeyrissjóðum en þessir málaflokkar heyra þó undir sitt ráðuneytið hvor. Við teljum ástæðu til að breyta þessu í vinsemd á milli aðila. Fulltrúar ráðuneytanna hafa ekki rætt þessi mál til hlítar en við höfum beðið um viðræður og vonumst til að hægt verði að ná ásættanlegri niðurstöðu," segir hann. Landssamtök lífeyrissjóða hafa óskað eftir því við fjármálaráðuneytið að fram fari heildarendurskoðun á lögum um lífeyrissjóði.