Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, staðfesti fyrr í dag víðtækt samkomulag á milli Landspítala Íslands- Háskólasjúkrahúss og fjögurra sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana um flutning verkefna frá LSH til viðkomandi stofnana. Stofnanirnar fjórar eru Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Sjúkrahúsið og heilsugæslustöðin á Akranesi, Heilbrigðisstofnun Suðurlands og St. Jósefsspítalinn og Sólvangur í Hafnarfirði.

Samstarfinu er annars vegar ætlað að tryggja rými vegna bráðaþjónustu LSH og þjónustu sjúklinga eftir alvarleg veikindi. Til dæmis verður bráðaþjónusta Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja efld með opnun nýrrar slysa- og bráðamóttöku, auk þess sem stofnunin mun annast sjúklinga á Suðurnesjum sem þurfa á líknandi meðferð að halda eða bíða eftir hjúkrunarrými á sjúkrahúsi. Þá á að efla þjónustuna á Akranesi á sviði öldrunarendurhæfingar, almennra lyflækninga, skurðlækninga og bæklunaraðgerða, og að efla þjónustu í Hafnarfirði á sviði meltingarsjúkdóma, skurðlækninga og á sviði sérhæfðrar öldrunarþjónustu.

Þá verður reynt að samræma sumarstarfsemi allra stofnananna eftir megni.Gert er ráð fyrir að faglegur og rekstrarlegur árangur af þessu fyrirkomulagi verði metinn ársfjórðungslega af báðum aðilum, í fyrsta skipti í byrjun apríl 2008 og síðan á þriggja mánaða fresti.