Vogunarstjóðurinn Elliott Management, sem stýrt er af milljarðamæringnum Paul Singer, býr sig nú undir mikla orrustu við eina ríkustu fjölskyldu heims – Lee fjölskylduna frá Suður Kóreu. Business Insider greinir frá.

Hin ógurlega valdamikla Lee fjölskylda ræður yfir 17 prósentum af hagkerfinu í Suður Kóreu, en hún er þekktust fyrir að vera höfuð Samsung stórveldisins.

Paul Singer er hins vegar þekktur fyrir að gera allt sem þarf til að sigra. Þegar hann reyndi einu sinni að kreista peninga úr argentínsku ríkisstjórninni fékk hann stjórnvöld í Gana til að hertaka eitt af herskipum Argentínumanna sem lá þar í höfninni. Það tók marga mánuði og aðstoð dómstóls Sameinuðu Þjóðanna til að fá skipið og 200 manna áhöfn þess aftur til Argentínu.

Nú er hann svo tilbúinn að takast á við Lee fjölskylduna, sem undanfarnar þrjár kynslóðir hefur reist 270 milljarða dollara stórveldi sem samanstendur af fjölmörgun fyrirtækjum – ekki bara raftækjaframleiðandanum Samsung. Dótturfyrirtækið Cheil Industries rekur gríðarlegan fjölda fyrirtækja sem ná allt frá saumaiðnaðnum í skemmtanaiðnaðinn.

Í Suður-Kóreu er þetta skipulag kallað „chaebol“, en það er flókin aðferð til að mynda net af mörgum og mismunandi fyrirtækjum undir einum leiðtoga valdamikillar fjölskyldu. Sagan segir að hægt sé að benda á nánast hvaða verslun í Suður Kóreu sem er og fá það staðfest að hún sé í eigu Lee fjölskyldunnar.

Spilling og fjölskylduerjur

Lee fjölskyldan hefur af og til lent í basli þegar kemur að því að halda stöðu sinni á toppnum.. Oft hafa komið upp alvarleg spillingarmál, fjölskyldumeðlimir hafa snúist gegn hvor öðrum og þá sérstaklega þegar nýir arftakar eru krýndir. Í augnablikinu er nýr leiðtogi af nýrri kynslóð einmitt að taka við keflinu, Lee Jae-yong. Hann tekur við af Lee Kun-hee, sem er 110. ríkasti maður heims samkvæmt Forbes tímaritinu.

Til að halda tveimur mjög valdamiklum systrum Lee Jae-yong ánægðum, sem og eldri kynslóðum frænda og frænkna, þá vill Lee fjölskyldan að áðurnefnt Cheil Industries kaupi Samsung, stærstu eign fjölskyldunnar.

Paul Singer, sem á 7 prósent hlut í Samsung, er hins vegar allt annað en ánægður með 9 milljarða dollara tilboð Lee fjölskyldunnar og segir það undirverðleggja fyrirtækið umtalsvert. Vert er að athuga að Lee fjölskyldan er í raun ekki að gera þetta fyrir peninga, heldur til að halda friðinn.

Með forseta Suður Kóreu í vasanum

Singer hefur hins vegar engann áhuga á mögulegum fjölskylduerjum og hefur fengið aðra fjárfesta í lið með sér. Að sama skapi hefur Lee fjölskyldan hóað í bandamenn sína – þar á meðal Hyundai fjölskylduna. Lee fjölskyldan reyndi að selja fyrirtæki í eigu Huyundai 8,9 milljónir eigin bréfa í fyrirtækinu með það að sjónarmiði að tryggja sér nógu mörg atkvæði til að þvinga í gegn samruna. Singer reynir hins vegar að stöðva það.

Ekki nóg með að hann reyni að stöðva það, heldur hefur Elliott vogunarsjóðurinn kært Samsung vegna sölunnar. Í dag fóru svo af stað orðrómar um að Lee fjölskyldan væri að gefast upp, en talsmaður þeirra harðneitaði því.

Til að draga upp mynd af því hversu öflug Lee fjölskyldan er má nefna dæmi af því að ættfaðirinn, Lee Kun-hee, viðurkenndi árið 2008 að hann væri með 200 milljóna dollara sjóð til þess eins að múta stjórnmálamönnum og dómurum. Hann viðurkenndi einnig að hafa stundað skattsvik og fjárdrátt, en var náðaður af forseta Suður Kóreu og sneri aftur til starfa sem stjórnarformaður Samsung innan árs.

Það verður athyglisvert að sjá hvort einn bandarískur milljarðamæringur eigi roð í þessa fjölskyldu.