Nokkrir af stærstu vogunarsjóðum heims hyggjast nú lögsækja breska fjármálaeftirlitið (FSA) og krefjast bóta fyrir milljóna punda tjón sem þeir hafa orðið fyrir vegna banns sem sett var við skortsölu í Bretlandi sl. fimmtudaginn.

Vogunarsjóðirnir segja stjórnvaldsfyrirmælin vera ólögmæt og valda miklu tjóni.

„FSA hefur með einu pennastriki þurrkað út fullkomlega löglega starfsemi og valdið milljóna punda tjóni. Það eltist við pólitískar vinsældir án tillits til skaðans sem það veldur,“ hefur Telegraph eftir einum viðmælenda sinna.

Áætlað er að rúmlega þriðjungur vogunarsjóða í Evrópu þurfi að grípa til neyðaraðgerða til að forðast að verða lokað vegna skortsölubannsins. Bannið kemur samkvæmt frétt Telegraph á versta tíma fyrir sjóðina og þrengir að þeim, þegar það sem þeir þurfa er olnbogarými og sveigjanleiki.

Viðmælendur Telegraph segja þá sem kenna skortsölumönnum um slæma stöðu banka og fjármálafyrirtækja skorta þekkingu til að vita betur. Að skella skuldinni á skortsölumenn sé óábyrgt lýðskrum. Hinir raunverulegu sökudólgar séu bankar, sem fóru of geyst í lánveitingar og fjárfestingabankar sem ollu undirmálslánakrísunni.

Telegraph greindi frá.