Ástralska námufyrirtækið BHP Billiton greindi frá því í gær að góðar framleiðslutölur hjá félaginu á fjórða ársfjórðungi fjárhagsársins gerðu það að verkum að félagið myndi tilkynna um methagnað á árinu í næsta mánuði. Forsvarsmenn BHP Billiton segjast búast við því samtals muni hagnaðurinn nema um 14 milljörðum Bandaríkjadala.

Fyrirtækið sagði að vaxandi eftirspurn á heimsmarkaði hefði gert það að verkum að framleiðsla félagsins hefði aukist. Að meðaltali eiga greiningaraðilar von á því að hagnaður félagsins á árinu verði 14,4 milljarðar dala, en á síðasta ári nam hagnaður námufyrirtæksins 10,45 milljörðum dala.