Eftir skarpa hækkun frá síðasta sumri hafa verðbólguvæntingar og -álag farið lækkandi síðustu misseri. Meðal helstu áhrifaþátta að mati greiningaraðila eru mildari tónn í kjaraviðræðum, hóflegri gengisveiking en búist var við – og minni verðlagsáhrif þeirrar veikingar sem þó hefur orðið – og lítil sem engin hækkun fasteignaverðs.

Auk þess hafi óvissa í tengslum við Wow air minnkað og misræmi í framboði og eftirspurn óverðtryggðra og verðtryggðra ríkisskuldabréfa hafi ýtt verðbólguálagi upp, sem nú sé að ganga til baka.

Seðlabankinn kynnti í gærmorgun niðurstöður ársfjórðungslegrar könnunar á væntingum markaðsaðila, meðal annars á verðbólgu og gengisþróun. Meðal þess sem þar kemur fram er að verðbólguvæntingar til skamms tíma lækkuðu um um það bil 0,1% frá síðustu mælingu, eftir að hafa hækkað um rúmt prósent á seinni helmingi síðasta árs.

Að sama skapi bjuggust markaðsaðilar við lítillega sterkara gengi krónunnar gagnvart evru að tveimur árum liðnum en þeir gerðu í síðustu könnun – en þá hafði vænt kaupverð einnar evru farið úr rétt rúmum 125 krónum á fyrri hluta síðasta árs, í tæpar 140 krónur á síðasta ársfjórðungi.

Mismunur ávöxtunarkröfu 12 ára óverðtryggðra ríkisskuldabréfa (RIKB 31) og 11 ára verðtryggðra ríkisbréfa (RIKS 30) við lokun markaða á föstudag var 3,66%, en það er 0,37 prósentustiga lækkun frá áramótum, og 0,60 prósentustiga lækkun frá því fyrir 3 vikum.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .