Vöruinnflutningur í maí var 35,7 milljarða króna samkvæmt bráðabirgðatölum um innheimtu virðisaukaskatts. Þetta kemur fram í vefriti fjármálaráðuneytisins. Tólf mánaða aukning staðvirts innflutnings án skipa og flugvéla var 23,2%.

Helstu drifkraftar innflutnings í maí eru eins og áður innfluttar hrá- og rekstrarvörur ásamt fjárfestingarvörum en aukninguna í þeim flokkum má að mestu rekja til stóriðjuframkvæmda. Þá er innflutningur á eldsneyti einnig stór þáttur en hafa ber í huga að sá liður er afar sveiflukenndur milli mánaða og var lítið flutt inn af eldsneyti í apríl.

Samkvæmt upplýsingum fjármálaráðuneytisins bendir allt til að nokkuð sé að draga úr innflutningi bifreiða, sem var mikill í upphafi árs og þá sérstaklega í mars. "Tölur um nýskráningar á bílum í maí gefa ekki til kynna að bílakaup almennings hafi aukist frá sama tíma í fyrra (miðað við þriggja mánaða meðaltal). Líklegt er að gengislækkun krónunnar útskýri þróunina."

Innflutningur á neysluvörum jókst nokkuð í maí, þá einkum hálf-varanlegum neysluvörum (heimilistæki,
gasgrill o.fl.)