Malcolm Walker, eigandi og stofnandi Iceland Foods, neitar því ekki í samtali við Viðskiptablaðið að Jón Ásgeir Jóhannesson eigi aðkomu að opnun nýrra verslana undir merkjum félagsins hér á landi.

Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu í morgun hyggst faðir Jóns Ásgeirs, Jóhannes Jónsson oft kenndur við Bónus, opna verslanir hér á landi í sumar undir merkjum Iceland. Verslanirnar verða opnaðar í samstarfi við Malcolm Walker.

Viðskiptablaðið náði tali af Walker sem staðfestir að til standi að opna verslun á Íslandi í samstarfi við Jóhannes. Óljóst er hvort Walker verður meðeigandi að Iceland verslunum hér á landi en Walker staðfestir þó að Iceland í Bretlandi muni sjá verslunum fyrir aðfluttum vörum.

Aðspurður um aðkomu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar vildi ekki Walker ekki tjá sig um það. Hann neitaði því þó ekki að Jón Ásgeir hefði átt aðkomu að því að semja við Iceland keðjuna um innkaup á vörum.

Nýlega var opnuð Iceland verslun í Tékklandi en í því tilfelli leigir þarlendur rekstraraðili vöru merkið í svokölluðum viðskiptasérleyfissamstarfi (e. franchise). Sem kunnugt er eignaðist Walker nýlega Iceland verslanirnar á ný þegar hann keypti 77% hlut af slitastjórn Landsbankans en fyrir átti Walker 23% hlut í keðjunni. Kaupverðið var um 1.550 milljónir sterlingspunda en hluturinn var áður í eigu Baugs, sem að mestu var í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, systur hans Kristínar Jóhannesdóttur og föður þeirra Jóhannes Jónssonar.

Breska vefritið The Grocer greindi fjallaði nýlega um rekstur Iceland verslananna og þar sem fram kom að opnun verslananna undir merkjum Iceland á Íslandi væri hluti af útrás verslunarkeðjunnar.