Warren Buffett, einn ríkasti maður heims, leitar nú fjárfestingakostum fyrir félag sitt Berkshire Hathaway. Félagið á 38 milljarða dala í lausafé. Í árlegu bréfi til hluthafa sagði Buffett að félagið myndi eyða metfé í fjárfestingar í ár. Hann telur að húsnæðismarkaðurinn í Bandarikjunum muni taka við sér á þessu ári.

Reuters fréttastofa greinir frá. Bréf Buffetts til hluthafa í ár þykir herskátt og augljóst að hann er bjartsýnn á komandi ár.

Virði eigna Berkshire er um 52 milljarðar dala. Meðal eigna er járnbrautafélagið Burlington Northern sem Buffett keypti árið 2009 og raforkufyrirtækið MidAmerican. Í bréfinu segir Buffett að hann ætli sér að fjárfesta frekar á þessum sviðum.