Bandaríski ofurfjárfestirinn Warren Buffett segir fýsilegt að fjárfesta í Japan þrátt fyrir að náttúruhamfarir og fjármálahneyksli hafi leikið landið grátt. Hann er þessa stundina staddur í sinni fyrstu ferð í Japan en þar vígði hann verksmiðju iðnfyrirtækisins Tungaloy Corp, sem fjárfestingarfélag hans Berkshire Hathaway á 80% hlut í.

Verksmiðjan er í borginni Iwaki, sem er um 40 km frá kjarnorkuverinu í Fukushima sem eyðilagðist í jarðskjálfta og flóðum í mars síðastliðnum og hefur geislavirkni mælst í nágrenni þess síðan þá.

Samkvæmt fréttum Reuters-fréttastofunnar í dag átti upphaflega að opna verksmiðjuna seint í mars og ætlaði Buffett að vera viðstaddur athöfnina. Vígslunni var frestað af völdum hamfaranna.

Fjármálahneykslið munu vera bókhaldsbrellur sem stjórnendur japanska tæknifyrirtækisins Olympus urðu uppvísir að í þeim tilgangi að fela taprekstur um margra ára skeið.

Iðnfyrirtækið Tungaloy var á árum áður í eigu japönsku fyrirtækjasamsteypunnar Toshiba. Fyrirtækið framleiða hluta til að skera út og móta hluta í vélar.