Wikileaks tilkynnti í dag að samtökin standi að peningasöfnun til þess að geta borgað uppljóstrurum fyrir leynilegar upplýsingar úr fríverslunarviðræðum Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Samtökin eru tilbúin að borga 100.000 evrur fyrir upplýsingarnar, eða jafnvirði um 15 milljóna króna.

Yfir 25.000 dollarar hafa safnast hingað til. Á meðal þeirra sem hafa lagt af hendi peninga til söfnunarinnar eru stofnandi Wikileaks, Julian Assange, og fyrrverandi fjármálaráðherra Grikklands, Yanis Varoufakis. CNN Money hefur eftir Kristni Hrafnssyni, talsmanni Wikileaks, að upplýsinganna þurfi að afla með hvaða hætti sem er.

Wikileaks tilkynntu í júní síðastliðnum að samtökin væru tilbúin að borga svipaða upphæð fyrir upplýsingar um hinn svokallaða Trans-Pacific Partnership Agreement. Það var í fyrsta skipti sem samtökin tilkynntu um notkun þessarar aðferðar við öflun upplýsinga.