„Ég þarf væntanlega ekki að minna á hversu krefjandi tímar eru að baki. Áhrifin eru sjáanleg út um allan heim en ekki einungis á Ísland. Í ljósi þess sjáum við mjög áhugaverðar tölur í uppgjörinu okkar,“ sagði William Fall, forstjóri Straums fjárfestingabanka á kynningarfundi í morgun.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá birti Straumur uppgjör fyrir 3.ársfjórðung auk októbermánaðar í morgun. Rekstrarniðurstaðan var 146 milljón evra tap eftir skatta. Gríðarleg virðisrýrnun hefur orðið á eignum félagsins, og nemur hún samtals 366,8 milljónum evra á tímabilinu byrjun janúar til loka október. Tveir þriðju þeirrar upphæðar er virðisrýrnun eigna á Íslandi, og þá að mestu leyti vegna hruns íslensku bankanna og erfiðra aðstæðna í íslensku efnahagslífi. Þrátt fyrir þessa miklu rýrnun er eigið fé félagsins sterkt, að sögn forstjóra.

Tap vegna hruns íslensku bankanna nú þegar komið fram

„Það mikilvæga er að við höfum tekið á okkur allt tap vegna falls íslensku bankanna, það er að baki að fullu,“ segir Fall.

„Einnig er mikilvægt að við höfum nú þegar framkvæmt háa varúðarniðurfærslu á íslenskum eignum. Við höfum í ljósi aðstæðna áhyggjur af mörgum íslenskum fyrirtækjum og vegna þess höfum við nú þegar tekið mögulegt tap vegna þeirra inn í reikninginn. Það sama höfum við gert vegna ýmissa erlendra eigna,“ segir forstjórinn.

Á fundinum í morgun var Fall tíðrætt um mikilvægan gjalddaga hjá félaginu, sem er þann 15. desember. „Endurfjármögnun á láni sem kemur til gjalddaga um miðjan desember er mjög mikilvægt skref fyrir okkur.  Við höfum unnið að endurfjármögnun lánsins í marga mánuði og við erum mjög nálægt því að ljúka henni. Ég vonast til þess að geta tilkynnt um slíkt í næstu viku,“ sagði hann.  Fall segir að í kjölfar þess að ljúka endurfjármögnun þess gjalddaga vill hann að viðskipti hefjist með bréf félagsins á nýjan leik. „Til þess að koma rekstri Straums í eðlilegt horf aftur er mikilvægt skref að koma viðskiptum með bréf félagsins í gang.“

Standa í skilum

Fall segir Straum hafa staðið í skilum með allar greiðslur þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður. „Við höfum staðið í skilum með hverja einustu greiðslu á láni og öðrum skuldbindingum bankans á síðustu fjórum til átta vikum og munum gera það áfram. Það er mitt loforð til lánadrottna okkar,“ segir hann.

Tekjugrunnur  Straums er áfram sterkur og segir Fall að þjónustu- og þóknanatekjur séu að taka við sér. Rekstrartekjur félagsins námu 78,4 milljónum evra í október. Rekstrarkostnaður nam 9 milljónum evra. Um 245 milljónir evra virðisrýrnun átti sér stað eingöngu í október sem setur svartan blett á rekstrarniðurstöðu félagsins á fyrstu 10 mánuðum ársins.

Nánar verður fjallað um uppgjör og rekstur Straums í Viðskiptablaðinu á föstudag.