Áður en Martin Winterkorn sagði af sér sem forstjóri Volkswagen vegna útblásturshneykslisins hafði hann unnið sér inn lífeyrisréttindi að fjárhæð um 32 milljónir dala, andvirði um 4,1 milljarðs króna, að því er segir í frétt Bloomberg. Þar segir jafnframt að enn gæti bæst við þessa fjárhæð, því hann gæti fengið starfslokagreiðslur. Það fari þó eftir því hvernig stjórn fyrirtækisins ákveður að skilgreina starfslok hans.

Í fréttinni segir að enginn möguleiki sé fyrir Volkswagen að koma í veg fyrir að Winterkorn fái lífeyrisgreiðslur sínar. Við ákveðnar aðstæður gæti hann svo átt rétt á tveggja ára launagreiðslum eftir starfslok. Það gerist þó ekki ákveði stjórnin að Winterkorn hafi hætt af ástæðum sem hann ber sjálfur ábyrgð á. Þá á Winterkorn rétt á því að aka á bíl fyrirtækisins svo lengi sem verið er að greiða honum út lífeyri.

Eftirlitsnefnd stjórnar Volkswagen sagði í gær að Winterkorn hafi ekki vitað af því að verið væri að svindla á útblástursprófum í Bandaríkjunum og hinu sama hefur Winterkorn sjálfur haldið fram.