Samkvæmt ótilgreindum heimildamönnum Wall Street Journal nálgast Yahoo samkomulag við Google um að útvista auglýsingastarfsemi til Google til að birta með niðurstöðum leitarvélar sinnar á netinu. Hvorki talsmenn Google né Yahoo vildu tjá sig um málið.

Mögulegt samstarf við Google er hluti af áætlunum Yahoo að sameinast Time Warner AOL, en síðastnefnda fyrirtækið fengi að launum hlut í Yahoo. Með því að útvista netleitarauglýsingum til Google getur Yahoo síðan einbeitt sér að vörumerkjaauglýsingum á netinu þar sem fyrirtækið stendur sterkar.

Wall Street Journal hermir að Yahoo og Google velti nú fyrir sér hvernig sé hægt að verjast mögulegum hindrunum sem gætu falist í auðhringjalöggjöfum [e. antitrust laws]. Möguleg lausn gæti falist í því að takmarka ákveðnar leitarniðurstöður við ákveðin svæði í heiminum.

Sem kunnugt er hefur Microsoft ítrekað reynt að fá samþykki stjórnar Yahoo fyrir yfirtökutilboði upp á 31 dollara á hlut. Stjórn Yahoo hefur lagst gegn tilboðinu og borið fyrir sig að verðið sé of lágt, þó við misjafnar undirtektir hluthafa í Yahoo.