Af þeim 72 verslunum sem Neytendastofa gerði nýlega könnun á um ástand verðmerkinga var tæplega helmingur með verðmerkingar í góðu lagi.

Þetta kemur fram á vef Neytendastofu en dagana 3. – 13. nóvember sl. gerði Neytendastofa könnun á ástandi verðmerkinga hjá  matvöruverslunum  á höfuðborgarsvæðinu en farið var í 72 matvöruverslanir sem reknar eru af 10 verslunarkeðjum.

Fram kemur að samræmi milli hillu- og kassaverðs var  ábótavant hjá 37 verslunum.  Bæði var um að ræða að verð væri hærra og lægra á kassa miðað við hillumerkingar.

Krónan, Reykjavíkurvegi var með áberandi slæmar verðmerkingar en tæplega helmingur af þeim vörum sem skoðaðar voru var rangt eða ekki verðmerktar.

Fjórar verslanir voru með algjört samræmi milli hillu- og kassaverðs, Þín verslun Seljabraut og svo þrjár verslanir 10-11, í Austurstræti, Barónstíg og Eggertsgötu.