Myllusetur ehf., útgáfufélag Viðskiptablaðsins og Fiskifrétta, hefur sent kvörtun til Samkeppniseftirlitsins vegna misnotkunar 365-miðla ehf. á markaðsráðandi stöðu sinni á íslenskum fjölmiðlamarkaði.

Að mati Mylluseturs ehf. hafa 365-miðlar ehf. brotið samkeppnislög nr. 44/2005 með margvíslegum og alvarlegum hætti í viðskiptaskilmálum sínum. Háttsemi fyrirtækisins felst m.a. í einkakaupum, tryggðarafsláttum, skaðlegri undirverðlagningu og samtvinnun ólíkrar þjónustu. Samkvæmt 11. gr. samkeppnislaga er markaðsráðandi fyrirtækjum óheimilt að viðhafa slíka háttsemi. Eru brotin einkum í tengslum við útgáfu á Fréttablaðinu og sölu auglýsinga. Myllusetur ehf. byggir kvörtun sína á upplýsingum sem það hefur undir höndum og hefur félagið gert ítarlega grein fyrir forsendum kvörtunarinnar í erindi til Samkeppniseftirlitsins.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir hdl. á lögmannstofunni Lex gætir hagsmuna Mylluseturs ehf. í málinu. Samkeppniseftirlitið hefur málið nú til skoðunar.

Myllusetur ehf. mun ekki tjá sig frekar á þessu stigi málsins.

F.h. Mylluseturs ehf.

Pétur Árni Jónsson