Parag Agrawal, sem tók við sem forstjóri Twitter fyrir viku síðan, er strax farinn að láta til skarar skríða og hefur ákveðið að segja upp Dantley Davis, yfirmanni hönnunarmála. Davis var í forsvari fyrir kaup samfélagsmiðilsins á Ueno , hönnunarfyrirtækinu sem Haraldur Þorleifsson stofnaði, í byrjun ársins.

Um er að ræða endurskipulagningu hjá Twitter sem felst í að skipta fyrirtækinu upp í þrjár nýjar deildir: neytandi, tekjur og kjarnatækni (e. core tech). Breytingarnar eiga að ýta undir skýrari ákvörðunartöku og ábyrgð ásamt auknum afköstum, samkvæmt Washington Post .

Davis var ráðinn til Twitter árið 2019 og var sá fyrsti til að gegna stöðu yfirmanns hönnunarmála hjá samfélagsmiðlinum. Davis, sem starfaði áður hjá Facebook, átti að hjálpa Twitter að tækla hatursorðræðu, villandi upplýsingum og áreitni á netinu.

Teymið hans réðst í að laga algrím sem forgangsröðuðu hvítum andlitum þegar verið var að kroppa (e. auto-crop) myndir. Davis setti einnig á fót teymi til að bregðast við miðaðri áreitni. Á sama tíma varð hann fyrir líflátshótunum á samfélagsmiðlinum sem leiddi til þess að Twitter réð öryggisverði til að vakta heimili hans um tíma.