Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, segir að útganga Bretlands úr Evrópusambandinu yrði „eitur“ fyrir Evrópu sem myndi hafa neikvæðar afleiðingar til fjölda ára.

Schäuble lét þessi ummæli falla í viðtali við breska ríkissjónvarpið BBC í gær. Þar sagði hann að útgöngu breta myndi fylgja margra ára samningaviðræður um stöðu Bretlands gagnvart Evrópusambandsríkjunum sem myndi leiða af sér mikið óöryggi fyrir Evrópusambandið og Bretland.

Í sama sjónvarpsþætti var rætt við Boris Johnson, borgarstjóra Lundúnarborgar, um sama málefni en hann hefur talað opinskátt um þá skoðun sína að Bretlandi væri betur borgið utan Evrópusambandsins. Hann ítrekaði skoðun sína í þættinum og ræddi m.a. nýlegt hneykslismál þar sem breskum kaupsýslumanni var bolað úr Britisch Chambers of Commerce (e. Breska Viðskiptaráðinu) fyrir að mæla með útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

Bretar munu kjósa um hvort Bretland eigi að vera áfram innan Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslu sem hefst 23. júní næstkomandi.