Þýski varnarmálaráðherrann, Franz Josef Jung, sagði á mánudaginn að bandaríska herliðið í Afganistan þyrfti sýna mun meiri gætni í hernaðaraðgerðum sínum gegn hryðjuverkamönnum í landinu, til að koma í veg fyrir mannfall borgara. Jung sagði í samtali við þýsku sjónvarpsstöðina ZDF að ef Bandaríkjaher bætti ekki úr þessu myndi það leiða til þess að herinn fengi almenning í Afganistan upp á móti sér.

Ummæli varnarmálaráðherrans endurspegla þær áhyggjur sem fara vaxandi á meðal evrópskra ráðamanna í kjölfar frétta um hátt mannfall afganskra borgara sem hægt er að rekja til bandarískra hernaðaraðgerða.