*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Ásdís Kristjánsdóttir
29. apríl 2019 11:22

1000 dýrar íbúðir í 101

Ábyrgð sveitarfélaga er mikil – á meðan viðvaranir voru hunsaðar hélt fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu áfram að hækka.

Haraldur Guðjónsson

Frá árinu 2014 hefur verðbólga mælst 12% en án áhrifa húsnæðisverðshækkana hefur hún aðeins verið um 1,5%. Húsnæðisverð, sem er um fimmtungur af vísitölu neysluverðs, hefur því verið meginkraftur á bakvið þá verðbólgu sem mælst hefur, eða öllu heldur framboðsskortur húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu.

Húsnæðisskorturinn kom þó fáum á óvart enda ljóst frá árinu 2009 hvert stefndi og sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins hunsuðu ítrekað viðvaranir; of fáum lóðum var úthlutað og of lítið byggt. Lengi hefur legið fyrir að þörfin er fyrst og fremst eftir ódýru og hagkvæmu húsnæði. Í því ljósi var varað við áherslum Reykjavíkur - borgar um að þétta byggð enda bæði dýrari og tímafrekari í framkvæmd.

Ástand sem var slæmt fyrir, varð enn verra. Í dag eru fimm þúsund íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu en þar af eru þúsund þeirra í 101 Reykjavík, á einu dýrasta svæði borgarinnar.

Afleiðingarnar eru þær að ungir og tekjulágir einstaklingar hafa átt í erfiðleikum með að komast inn á fasteignamarkaðinn og greiða þess í stað háa leigu. Heimili og fyrirtæki hafa á sama tíma greitt umtalsvert hærri vexti en ella enda ljóst að stýrivextir Seðlabankans hefðu verið mun lægri ef uppsöfnuð verðbólga frá árinu 2014 hefði verið 1,5% en ekki 12%.

Ábyrgð sveitarfélaga er því mikil – á meðan viðvaranir voru hunsaðar hélt fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu áfram að hækka. Fasteignaskattur er næststærsti tekjuliður sveitarfélaga á eftir útsvari. Áætlaðar heildartekjur sveitarfélaga af fasteignaskatti á árinu 2018 voru 45 milljarðar króna en samfara hækkandi fasteignaverði hafa tekjurnar hækkað um 30% á föstu verðlagi á fjórum árum. Fasteignaskatturinn hefur reynst mikilvæg tekjulind til að bæta upp hallarekstur sveitarfélaga. Sveitarfélögin hafa mikið um það að segja hvar er byggt og hvernig – áhugaleysi þeirra gagnvart framboðsskortinum var kannski fyrirséð.

Höfundur er forstöðumaður efnahagssviðs SA.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.