*

þriðjudagur, 29. september 2020
Rut Kristjánsdóttir
16. maí 2020 13:43

Ábyrgar fjárfestingar — þegar á hólminn er komið

Sjálfbærni, samfélagsábyrgð og umhverfisvæn eru nokkur af þeim fjölmörgu orðum sem við sjáum sífellt meira sett fram af fyrirtækju

Krafa um að fjárfestar hugi að fleiri atriðum en eingöngu hefðbundnum fjárhagslegum þáttum í fjárfestingum sínum er sífellt að verða háværari. Óhætt er að fullyrða að allflestir taki nú til dags í auknum mæli tillit til áhrifa á umhverfis- og samfélagsþætti áður en til endanlegrar ákvörðunar kemur og til þess að svo megi verða vegur ófjárhagsleg upplýsingagjöf fyrirtækja þungt.

Tilkoma hjá íslenskum lífeyrissjóðum

Lífeyrissjóðum var gert að setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum árið 2017 og í kjölfarið völdu margir þá leið að nýta sér aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga, meðal annars til þess að uppfylla lagakröfu. Grunnstefið í fræðum ábyrgra fjárfestinga felur í sér að horft er til þriggja grunnþátta sjálfbærni; umhverfis- og félagsþætti og stjórnarhætti við fjárfestingar.
Horft er enn frekar til ófjárhagslegra upplýsinga til viðbótar við hefðbundna fjárhagslega þætti við greiningu og eftirfylgni fjárfestinga, sem og við uppbyggingu eignasafna. Hvatarnir hjá fjárfestum og fyrirtækjum geta verið margvíslegir en langtíma sjónarmið, fjárhagslegur ávinningur, orðsporsáhætta, löggjöf og almenn vitundarvakning og þrýstingur úr samfélaginu vega hátt.

Framsetning ófjárhagslegra upplýsinga

Í samræmi við breytingar á fjárfestingarstefnum viðskiptavina tók eignastýring fagfjárfesta hjá Arion banka árið 2018 ákvörðun um að samþætta aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga inn í verklag tengt fjárfestingum. Þegar að framkvæmdarhliðinni kom var hinsvegar ljóst að skortur var á samhæfðum upplýsingum og samræmdu viðmiði um ófjárhagslega þætti innlendra fyrirtækja, en slíkt einfaldar samanburð á milli félaga í ólíkri starfsemi. Af þessum sökum ákvað eignastýringin að ráðast í greiningu og eftirfylgni á ófjárhagslegum upplýsingum fyrirtækja skráð á aðallista Nasdaq Iceland, í fyrsta sinn árið 2018. Sambærileg greining var svo endurtekin á síðasta ári. Tilgangur að baki þessari framkvæmd var og er að varpa ljósi á frammistöðu félaganna í ófjárhagslegri upplýsingagjöf og jafnframt hvetja til aukinnar upplýsingagjafar.

Notast var við ESG leiðbeiningar Nasdaq um ófjárhagslega upplýsingagjöf og greint hvort félögin birtu upplýsingar í samræmi við þær, en í leiðbeiningunum er að finna viðmið sem ætluð eru að hjálpa félögunum að standa skil á ófjárhagslegri upplýsingagjöf sinni. Opinbert efni félaganna var greint, svo sem samfélagsskýrslur, ársreikningar, heimasíður og aðrar upplýsingar. Lokahnykkurinn í þessu ferli voru svo gagnlegir og upplýsandi fundir með fulltrúum félaganna, þar sem farið var yfir greininguna, málefni samfélagsábyrgðar félaganna rædd og fyrirtækin hvött til þess að velja sér viðmið til að byggja á.

Niðurstaða greiningar og eftirfylgni

Í fyrri greiningu gáfu niðurstöður til kynna að félögin væru meðvituð um samfélagsábyrgð en væru komin mislangt á veg í að segja frá henni. Seinni greining sýndi að upplýsingagjöf hefur aukist til muna en alls 70% félaganna hafa valið að styðjast við opinber viðmið eða leiðbeiningar samanborið við 37% árið áður. Milli ára er hlutfallsleg aukning mest á sviði umhverfis- og samfélagsmála sem skýrist einna helst af því að fleiri félög eru farin að styðjast við skilgreind viðmið eða leiðbeiningar og birta því upplýsingar í takt við þau viðmið sem voru valin. Erfitt er að fullyrða að eitt viðmið standi öðru framar en greiningin leiðir engu að síður í ljós að það að velja sér viðmið eða leiðbeiningar til að varða leiðina eykur bæði magn og gæði ófjárhagslegra upplýsinga. Við greiningu sem þessa er þó vert að hafa í huga að það ætti ekki að vera keppikefli í sjálfu sér að upplýsa um öll atriði á grundvelli ákveðins viðmiðs, heldur frekar það sem þykir viðeigandi með tilliti til viðskiptalíkans og starfsemi hvers félags.

Ófjárhagslegar upplýsingar skráðra félaga á aðallista Nasdaq Iceland eru á heildina litið að aukast umtalsvert milli ára og reynsla af fundum og samtölum við félögin er sú að flest sýni jákvæða viðleitni til þess að bæta enn um. Telja má víst að kröfur um ábyrgar fjárfestingar og samfélagsábyrgð fyrirtækja muni aukast á komandi tímum og því engin ástæða til þess að láta staðar numið þrátt fyrir að árangri sé náð.

Sjálfbærni, samfélagsábyrgð og umhverfisvæn eru nokkur af þeim fjölmörgu orðum sem við sjáum sífellt meira sett fram af fyrirtækjum. Það er einföld vinna fyrir félög að skreyta sig með hinum ýmsu „grænu“ orðum og birta þær stefnur og upplýsingar sem óskað er eftir. Annað er hinsvegar að vinna að því að ná settum „grænum“ markmiðum eða framfylgja stefnum og nýta ófjárhagslegar upplýsingar til markmiðasetningar um að gera enn betur. Þar getur öguð upplýsingagjöf og sú vinna og rýni sem í henni felst stutt við stjórnendur og starfsfólk.

Væntingar okkar standa til þess að öll skráð félög á aðallista Nasdaq Iceland verði búin að velja sér viðmið eða leiðbeiningar fyrir ófjárhagslega upplýsingagjöf fyrir rekstrarárið 2019, og birti upplýsingar til samræmis.

Höfundur er sérfræðingur í eignastýringu fagfjárfesta hjá Arion banka.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.