Flestir munu vera sammála um mikilvægi innviða fyrir samfélagið, hagvöxt, nýsköpun og framleiðniþróun bæði hér á landi sem og annars staðar. Þess vegna hvetur Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) aðildarríki til þess að auka samstarf við einkafjármagnið við uppbyggingu á innviðum.

Í nýlegri skýrslu sem Samtök iðnaðarins og Félag ráðgjafarverkfræðinga gaf út segir að ónóg fjárfesting í innviðum hér á landi hafi valdið því að ástand þeirra er víða óviðunandi og uppsöfnuð fjárfestingarþörf er talin vera 420 milljarðar. Þessi fjárhæð hefur hækkað frá síðasta mati frá 2017 og viðfangsefnið er erfiðara í ljósi áhrifa sem rekja má til heimsfaraldursins.

Árið 2007 gaf OECD út sérstakar meginreglur um innviðafjárfestingar, reglur sem ætlað var að hvetja einkafjármagnið til að fjárfesta í innviðum. Hugmyndafræðin gengur út á að deila uppsafnaðri fjárfestingaþörf með einkafjármagni og létta þar með undir með stjórnvöldum. Þegar reglurnar voru gefnar út voru nokkur ár síðan stjórnvöld á Íslandi höfðu ákveðið að selja Símann sem þótti á þeim tíma umdeild einkavæðing á ríkisfyrirtæki. Í dag er lítil umræða um að þjóðnýta fjarskiptafyrirtæki og það er til marks um ágætis árangur í uppbyggingu á fjarskiptainnviðum að árið 2018 taldi Alþjóðafjarskiptasambandið þróun fjarskiptainnviða á Íslandi vera til fyrirmyndar. Aðalritari sambandsins sagði þá að uppbygging fjarskiptainnviða snerist ekki bara um fjárfestingu einkaaðila, heldur líka að hið opinbera þyrfti að koma að málum.

Fjarskipti eru eitthvað sem snýr að flestum sviðum samfélagsins og í þessu mikilvæga samspili hins opinbera og fyrirtækja var Ísland talið til fyrirmyndar. Sigurður Ingi Jóhannesson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagði á þeim tíma viðurkenninguna undirstrika stefnu íslenskra stjórnvalda um að efla aðgengi að öflugu fjarskiptakerfi, ásamt því að vera viðurkenning fyrir fjarskiptafyrirtækin sem hann sagði hafa náð góðum árangri vegna virkrar samkeppni og mikilla fjárfestinga.

Sá árangur sem talinn er tilefni til alþjóðlegrar viðurkenningar byggir á virkri samkeppni og samspili hins opinbera við fyrirtækin. Aðferð sem OECD telur til fyrirmyndar við þróun innviða, er að auka samkeppni á sviði innviða í stöðugu samtali við stjórnvöld. Meginregla OECD nr. 7 segir til að mynda að ábatinn af þátttöku einkaaðila í innviðaverkefnum aukist með virkri samkeppni, þar með talið aðhaldi frjálsra viðskipta, afnámi á óþarfa takmörkunum og innleiðingu og eftirfylgni með samkeppnislögum og reglum. Úr því að vel tókst til við kerfisbreytingar á fjarskiptainnviðum er þá ekki tilefni til að skoða aðra innviði og samkeppnisumhverfi þeirra?

Í nýlegri skýrslu frá OECD um innviði segir að mikilvægt teljist að nýta sérfræðiþekkingu og fjárfestingagetu einkaaðila við uppbyggingu sjálfbærra innviða og er þar sérstaklega vísað til ástandsins í hagkerfum heimsins vegna heimfaraldursins. Að samstarf við einkageirann sé vel til þess fallið að laða að fjárfesta og dreifa áhættu. Þá segir að efla þurfi forystu stjórnvalda við að ná markmiðum um sjálfbærni í innviðum.

Það er von mín að til framtíðar snúist samstarf hins opinbera við einkafjármagnið ekki um einkavæðingu eða gróðahyggju einkafjármagns. Það er ekki að ástæðulausu sem OECD hvetur aðildarríkin til að auka þátttöku einkafjármagns í innviðauppbyggingu, það hefur skilað árangri. Efnahags- og framfarastofnunin er einstakur vettvangur þar sem ein 30 þjóðríki vinna saman að því mæta efnahagslegum, félagslegum og umhverfisáskorunum samtímans. Stofnunin er leiðandi í viðleitni sinni við að sundurgreina og meta málefni, skerpa skilning á þeim og veita í kjölfarið stjórnvöldum leiðsögn til að mæta áskorunum. Á þessum vettvangi geta aðildarríkin speglað eigin umhverfi við önnur þjóðríki, leitað leiðsagnar og svara við flóknum málefnum til að marka stefnu til framtíðar sem telst þá í samræmi við alþjóðleg viðmið.

Ísland er aðili að OECD og á þeim vettvangi hefur mikil umræða átt sér stað um innviði, stöðu þeirra og hvernig er hægt að bæta þá. Innviðaverkefni eru alla jafna fjárfrek og flókin og á fáum sviðum nýtist sú þekking og reynsla sem byggð hefur verið upp hjá OECD eins vel.

Málefnið snýst ekki um einkavæðingu eða ríkisrekstur. Það snýst ekki um hvort hið opinbera eða einkafjármagnið er betur til þess fallið að byggja hús. Þegar ríkisstofnunum eða sveitarfélögum mistekst að standa við áætlun er mikið úr því gert en minna talað um að einkafjármagninu tekst ekki alltaf vel til. Mergur málsins er að það getur margt farið úrskeiðis við að byggja hús og innviðir eru töluvert flóknari en að byggja hús. Mestu máli skiptir að virkja styrkleika beggja og stuðla að samstarfi bæði við innlenda sem og erlenda fjárfesta.

Það er skortur á beinni erlendri fjárfestingu hér á landi og það er fátt sem er betur til þess fallið að laða að erlent langtíma fjármagn en í gegnum innviðauppbyggingu. Slíkir sérhæfðir fjárfestar leita alla jafna samstarfs við innlenda aðila og deila sérþekkingu með okkur. Við þurfum átak í innviðauppbyggingu og við þurfum að horfa til þess sem OECD ráðleggur okkur sem öðrum í þeim efnum. Að deila fjárfestingarþörfinni með einkafjárfestum, hvort sem þeir teljast vera lífeyrissjóðir eða einkafyrirtæki sem sýna innviðum áhuga sem langtíma fjárfestingakostum.

Höfundur er framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs.