Ein dýrasta bygging síðari tíma rís nú í Taívan. Þar er fyrirtækið TSMC, sem fáir kannast við, að byggja verksmiðju fyrir 20 milljarða dollara.

Í verksmiðjunni eru rykfrí herbergi sem þekja myndu 22 fótboltavelli. Þar verða framleiddir nýir örgjörvar með smæstu smára sem sést hafa. Þykktin er þrír nanómetrar, sama og neglur lengjast um á þremur sekúndum.

Örgjörvaframleiðsla er kennslubókardæmi um stærðarhagkvæmni. Í árdaga iðnaðarins kepptust fyrirtæki um að samþætta örgjörvahönnun og -framleiðslu. Intel varð þar ofan á og varð í kjölfarið eitt af stærstu tæknifyrirtækjum heims.

TSMC ákvað hins vegar að einskorða starfsemina við framleiðslu. Margir hönnuðir gætu þannig deilt framleiðslukostnaði án þess að óttast hugverkastuld.

Smám saman fóru hönnuðir að treysta TSMC fyrir framleiðslunni. Og nú er þar enginn með tærnar þar sem félagið hefur hælana. Í krafti sívaxandi magns og fjárfestinga hefur TSMC þróað bestu örgjörva heims og byggt upp mestu framleiðslugetuna – og mun fjárfesta 100 milljörðum dollara næstu þrjú árin til að viðhalda forskotinu.

Þessar upphæðir eru birtingarmynd þess að flestir nota örgjörva daglega. Þekktustu dæmin eru tölvur og símar, en Apple, AMD, Huawei, Qualcomm og Nvidia hafa öll úthýst framleiðslu sinni til TSMC. En örgjörvar eru víðar, til dæmis í heimilistækjum, bílum, lækningatækjum, sjónvörpum og jafnvel tannburstum.

Mikilvægi TSMC er slíkt að það er orðið að ágreiningsefni hervelda. Bandaríkin vilja að félagið neiti kínverskum fyrirtækjum um viðskipti og Kína hefur hafið fjárfestingar til að byggja upp eigin framleiðslugetu. Nú er skortur á örgjörvum á heimsvísu þar sem viðskiptavinir TSMC vilja auka birgðir vegna ástandsins.

TSMC hefur náð stærðarhagkvæmni með því að feta línu sem bæði Kína og Bandaríkin geta sætt sig við. En sú lína er að verða þynnri en smárarnir.

Höfundur er hagfræðingur