Bjarni í búsinu Tý þótti áhugavert að sjá Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra stíga fast til jarðar í samtali um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins við Ríkisútvarpið á föstudag. Tilefni viðtalsins var að netverslunin Heimkaup hefur slegist í hóp þeirra netverslana sem bjóða viðskiptavinum heimsendingu á áfengi sem keypt er gegnum netið.

Í viðtalinu sagði fjármálaráðherra tímabært að endurskoða fyrirkomulag ÁTVR, enda þyrftu lögin að breytast í takt við breytta tíma og netverslun með áfengi væri eðlileg þróun í nútímasamfélagi. Enn fremur var haft eftir honum: „Ég hef aldrei verið þeirrar skoðunar að það sé einhver rökbundin nauðsyn að það séu opinberir starfsmenn sem afhenda áfengið til þeirra sem kaupa það. Og það er margt sem stangast á í þessu hvernig við erum að upplifa þetta gamla lagaregluverk í nútímasamfélagi, en ég er þeirrar skoðunar að nú sé orðið tímabært að hugsa þetta út frá þörfum, væntingum og vilja fólks til þess að umgangast þessa vöru sem hefur lotið sérstökum reglum.“

Týr er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út 7. júlí 2022.