*

miðvikudagur, 1. apríl 2020
Benedikt Gíslason
30. desember 2019 22:36

Drifkraftur góðra verka

Hlutverk banka sem milliliðar og hvata á markaði skiptir ekki síst máli þegar hægir á í efnahagslífinu.

Eva Björk Ægisdóttir

Bankar miðla fjármagni og gegna mikilvægu hlutverki í efnahagslífinu. Þeir miðla fjármagni frá þeim sem leita ávöxtunar á sparifé sitt til þeirra sem leita fjármagns til fjárfestingar, t.d. í íbúðarhúsnæði eða til uppbyggingar atvinnustarfsemi. Fjárfesting er drifkraftur hagvaxtar og nauðsynlegur þáttur heilbrigðs efnahagskerfis. Bankar eru ekki aðeins mikilvægir í efnahagslegu tilliti því þeir gegna jafnframt veigamiklu hlutverki á þeirri vegferð sem fram undan er í loftlags- og umhverfismálum þar sem við Íslendingar erum samábyrgir öðrum þjóðum um raunhæfar aðgerðir.

Bankar eru hreyfiafl

Loftlagsváin varðar okkur öll og margt þarf að breytast á næstu árum í efnahagskerfi heimsins. Í september á þessu ári gerðist Arion banki aðili að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi. Reglurnar miða að því að tengja starfsemi banka við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og ákvæði Parísarsamkomulagsins í loftslagsmálum. Fjármagni fylgja framfarir – sé því beitt rétt – og bankar heimsins þurfa að verða raunverulegt hreyfiafl orkuskipta og hraðall fyrir uppbyggingu grænna innviða.

Okkar skyldur gagnvart umhverfinu eru miklar og munu í ríkari mæli setja mark sitt á starfsemi Arion banka, hvort sem um er að ræða innkaup, rekstur eða þjónustu við viðskiptavini. Sjónarmið í umhverfis- og loftslagsmálum munu innan tíðar hafa áhrif á allar okkar ákvarðanir. Eitt helsta verkefni næstu ára er að meta áhrif útlána okkar á umhverfið og móta okkur stefnu um hvernig grænar áherslur munu setja svip á lánasafn bankans.

Stefna stjórnvalda að takmarka útlánagetu banka

Nú er lengsta hagvaxtarskeiði lýðveldissögunnar að ljúka. Hlutverk banka sem milliliðar og hvata á markaði skiptir ekki síst máli þegar hægir á í efnahagslífinu. Það er því ástæða til að rifja upp áhrif þeirra breytinga sem hafa orðið á regluverki fjármálamarkaða á síðasta áratug og innleiðingu þeirra hér á landi í samanburði við önnur Evrópuríki. Stjórnvöld innleiddu ýmis íþyngjandi íslensk sérákvæði í bland við evrópskar reglur að hluta til vegna óvenjulegra aðstæðna sem uppi voru hér á landi. Þessi séríslensku ákvæði snúa m.a. að háum eiginfjárkröfum og ofursköttum langt umfram það sem þekkist í Evrópu. Frekari álögur eru í farvatninu frá Evrópu sem fela í sér aukið vaxtaálag og framlag í svokallaðan skilasjóð (MREL) sem þá kemur til viðbótar við sértæka skatta eins og bankaskatt, fjársýsluskatt og sérstakan fjársýsluskatt.

Núna hafa aðstæður breyst hér á landi. Óhóflegir skattar á launakostnað og fjármögnun auka rekstrarkostnað fjármálafyrirtækja og veikja samkeppnisstöðu þeirra gagnvart öðrum lánveitendum, bæði innlendum og erlendum, sem ekki búa við jafn íþyngjandi skattaumhverfi. Þannig leiðir stefna stjórnvalda til þess að lánakjör, sem bankar bjóða, eru óhagstæðari en ella sem aftur hefur neikvæð áhrif á hagvöxt.

Það er tímabært að íslensk stjórnvöld geri sér grein fyrir raunverulegum íþyngjandi afleiðingum íslenskra sérákvæða sem hamla útlánagetu íslenskra banka og draga úr getu þeirra til að styðja við verðmætasköpun og aukinn hagvöxt. Það er líka tímabært að stjórnvöld skoði hvernig ákvæði, sem hamla verðmætasköpun í landinu, samræmast stefnu ríkisstjórnarinnar um eflingu fjölbreytts atvinnulífs, velsæld og lífsgæði hér á landi.

Raunsæi varðandi kostnað

Við gerum ráð fyrir því að lánabók Arion banka til stórra fyrirtækja muni á næstu mánuðum minnka. Þetta mun gerast þrátt fyrir að lausafjárstaða bankans sé sterk og útlánageta fyrir hendi. Staðreyndin er sú að hluti lána bankans til fyrirtækja skilar óviðunandi arðsemi þegar tekið er tillit til ríkra eiginfjárkrafna, fjármuna sem bankinn þarf að leggja til hliðar við hverja lánveitingu, og sértækra skatta sem leggjast á fjármögnun bankans. Í þessu felst raunsæi hvað varðar kostnað bankans vegna lána til fyrirtækja landsins og þá sérstaklega til stórra fyrirtækja. Þetta er bein afleiðing af stefnu stjórnvalda. Okkur er ljóst að í einhverjum tilvikum munu fyrirtæki kjósa að greiða lán sín upp í stað þess að sætta sig við hærri vexti og nýta sér þá kosti erlendrar fjármögnunar eða skuldabréfamarkaðarins, eins og raunar mörg af stærri fyrirtækjum landsins gera nú þegar. Við munum áfram vera öflugur milliliður og aðstoða þessi fyrirtæki við að sækja sér hagstæðustu fjármögnun á hverjum tíma.

Til hagsbóta fyrir alla haghafa

Ein af skyldum allra fyrirtækja er að standa við skuldbindingar sínar og skila arði. Vissulega hafa íslenskir bankar skilað arði á síðustu tíu árum en hann fer minnkandi og mun halda áfram að dragast saman verði ekkert að gert.

Okkur, sem störfum í bankakerfinu, ber skylda til að reka ábyrg og arðsöm fyrirtæki til hagsbóta fyrir alla haghafa; viðskiptavini, hluthafa, starfsfólk og samfélagið í heild. Banki, sem er rekinn með lágri eða ófullnægjandi arðsemi, er ekki sjálfbær eða fær um að fjárfesta í þjónustu við sína viðskiptavini. Slíkur banki gagnast ekki efnahagslífinu til lengri tíma né mun hann vera hreyfiafl til góðra verka. Markmið okkar er að styrkja stöðu bankans til framtíðar og gera honum betur kleift að styðja við viðskiptavini sína og samfélagið í heild á sama tíma og hann skilar hluthöfum sínum ásættanlegum arði af sinni fjárfestingu.

Höfundur er bankastjóri Arion banka. Greinin birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.