Nýlega hefur nokkuð borið á umræðu um hvort taka megi tillit til umhverfismála og annarra sjálfbærnimála við ákvarðanatöku stjórna og stjórnenda fyrirtækja. Um sé að ræða samsuðu viðskipta og stjórnmála, takmörkun á verðmætasköpun og að skýrt umboð hluthafa þurfi til þess að horfa til þessara mála. En hvað mega stjórnir og hvað eiga stjórnir að gera í þessu sambandi?

Umboð stjórna

Ekki má rugla því saman hver ákveður tilgang fyrirtækis við það hver setur stefnur þess, svo sem stefnur um sjálfbærni, umhverfis-, samfélags- eða starfsmannamál. Eigendur fyrirtækja, hluthafarnir, ákveða tilganginn, þ.e. í hvaða starfsemi viðkomandi fyrirtæki er. Ákvörðun eigenda markar þar með umgjörð fyrirtækisins.

Á hluthafafundum er svo kosin stjórn sem fær þar umboð til sinna starfa frá hluthöfum. Í því felst að stjórnin ber ábyrgð á starfsemi fyrirtækisins og tekur ákvarðanir um rekstur þess, þó þannig að fari ekki út fyrir tilgang fyrirtækisins. Það er því í höndum stjórna að móta stefnu fyrirtækisins til lengri tíma.

Forstjóra eða framkvæmdastjóra viðkomandi fyrirtækis ber síðan að vinna eftir þeirri stefnu sem stjórnin setur. Þessi þrískipting valds er lykilatriði í góðum stjórnarháttum og mikilvægt er að hluthafar, stjórn og stjórnendur haldi sig hver innan marka síns hlutverks. Góðir stjórnar-hættir, með skýrum hlutverkum og skýrri skiptingu ábyrgðar, stuðla að betri ákvörðunartöku.

Má þetta?

Já, stjórn má setja stefnu um sjálfbærni, umhverfis-, samfélags- eða mannauðsmál eða annað í þeim dúr. Stjórn þarf því ekki að boða til hluthafafundar þegar slík stefna er sett eða endurskoðuð og leggja til samþykktar hluthafa. Að marka stefnu er einfaldlega eitt af lögbundnum hlutverkum stjórna.

Þá er það hvorki lögfest regla í íslenskum rétti að stjórnum fyrirtækja sé einungis ætlað að hámarka arð til hluthafa, né er það bannað í lögum að stjórnir hugi að öðrum sjónarmiðum við störf sín.

Á þetta?

Íslensk löggjöf gengur út frá því að fyrirtæki af ákveðinni stærðargráðu og fyrirtæki sem teljast tengd almannahagsmunum, þ.e. félög skráð í kauphöll, lífeyrissjóðir, lánastofnanir, tryggingafélög, auk tiltekinna stóriðjufyrirtækja, orkufyrirtækja, flugfélaga, fjarskiptafyrirtækja, flutningsfyrirtækja og sjávarútvegsfyrirtækja, taki tillit til fleiri sjónarmiða en fjárhagslegra sjónarmiða í rekstri sínum. Í lögum um lífeyrissjóði er sérstaklega kveðið á um að stjórnir þeirra skuli setja sér siðferðileg viðmið í fjárfestingum og í lögum um ársreikninga er ákvæði um birtingu ófjárhagslegra upplýsinga með skýrslu stjórnar. Það væri einkennilegt ef stjórnum fyrirtækja bæri skylda til að birta upplýsingar um þróun, umfang og stöðu í umhverfis-, samfélags- og starfsmannamálum og lýsa megináhættum sem tengjast þessum málum í rekstri fyrirtækjanna og greina frá þeim ófjárhagslegu lykilmælikvörðum sem þær hafa sett fyrirtækinu á þessu sviði ef þetta væru ólögmæt sjónarmið.

Hvað þessi sem og öll önnur fyrirtæki varðar er Pólstjarnan sú lögbundna skylda stjórna að sjá til þess að skipulag fyrirtækisins og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Með hagsmuni fyrirtækisins í huga. En hverjir eru hagsmunir fyrirtækisins?

Sjálfbær rekstur = góð langtímafjárfesting

Í árlegu bréfi Larry Fink, forstjóra sjóðstýringarrisans BlackRock, til forstjóra fyrirtækja (sem birt var 18 janúar sl.), segir hann að fyrirtæki verði að skapa virði fyrir alla haghafa sína, - hluthafa, starfsmenn, viðskiptavini, samfélög, yfirvöld - til þess að skila langtímavirði til hluthafa. Þar kemur fram að þeirra sannfæring sé sú að frammistaða fyrirtækja sé betri þegar fyrirtækin hafi tekið skýra afstöðu til hlutverks síns í samfélaginu og þau hugsi um hag starfsmanna sinna, viðskiptavina, samfélagsins og hluthafanna. Áhersla BlackRock á sjálfbærni byggi ekki á því að þau séu umhverfisverndarsinnar, heldur því að þau séu kapítalistar og hugsi um hag sinna fjárfesta.

Hvað er enda sjálfbærni annað en að tryggja að fyrirtæki sé starfhæft og arðbært til lengri tíma? Út frá aðföngum, út frá velferð starfsmanna, út frá sköttum og gjöldum á mengandi þætti, út frá fjármögnunarmöguleikum o.s.frv. o.s.frv. Sjálfbærni er öflug áhættustýring.

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar sjálfbærnikönnunar Deloitte töldu 97% þátttakenda að loftslagsáhrif hefðu þegar haft neikvæð áhrif á fyrirtækin sem þeir stýra og helmingur sagði að rekstur hefði raskast vegna loftslagsbreytinga. Könnunin náði til samtals tvö þúsund stjórnenda í 21 landi.

Áðurnefndur Larry Fink kveður flesta haghafa nú ætlast til þess af fyrirtækjum að þau taki þátt í að minnka kolefnislosun hagkerfisins í heild. Þá muni fátt hafa meiri áhrif á fjármögnunarmöguleika fyrirtækja, og þar með langtímavirði þeirra, en það hvernig þeim takist að feta þann veg á næstu árum. Öll fyrirtæki og allar atvinnugreinar muni umbreytast við aðlögunina að kolefnishlutlausum heimi. Eina spurningin sé hvort fyrirtækin muni leiða breytingarnar eða verða leidd.

Ingunn Agnes Kro
Ingunn Agnes Kro

Höfundar eru Elín H. Jónsdóttir, Gróa Björg Baldvinsdóttir og Ingunn Agnes Kro. Allar eru þær lögfræðingar og með víðtæka reynslu af stjórnarháttum fyrirtækja og rekstri.