*

þriðjudagur, 7. júlí 2020
Heiðrún Lind Marteinsdót
23. ágúst 2019 14:11

Greitt yfir skallann

Tilveruréttur stimpilgjaldsins er líklega áþekkur líflausum hárlufsum sem karlmenn, sumir hverjir, þráast við að greiða yfir skalla.

Sama ár og frostaveturinn mikli reið yfir Ísland, 1918, var stimpilgjald lagt á hér á landi vegna hinna ýmsu löggerninga. Gjaldinu var upphaflega ætlað að mæta kostnaði ríkisins við stimplun skjala, tengdum viðskiptum manna, sem væru svo mikilvæg að þau þurfti að færa til bókar í  sönnunarskyni. Á þeim ríflega eitthundrað árum sem liðin eru hefur öllum orðið ljóst að fjárhæð stimpilgjalds er í engu samræmi við mögulegan kostnað ríkisins við veitta þjónustu. Tækni hefur aukinheldur fleygt fram og fá skjöl eru í raun og sanni stimpluð með höndum ríkisstarfsmanna. Þetta er einfaldlega skattlagning, en ekki gjald fyrir veitta þjónustu. 

Á þeim ríflega hundrað árum sem liðin eru, hafa sannarlega verið gerðar breytingar á gjaldinu, jafnvel til einföldunar og lækkunar. Ábendingar frá erlendum stofnunum, líkt og ESA og Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, hafa meðal annars leitt til breytinga. Hefur forsendan þá jafnan verið sú að gjaldið skerði samkeppnishæfni fyrirtækja á alþjóðlegum mörkuðum. Þannig hafa skipafélög, flugfélög og bankar fengið grið. 

Sjávarútvegur, ein atvinnugreina, þarf hins vegar að greiða stimpilgjald af atvinnutækjum. Ekki aðeins skekkir þetta samkeppnisstöðu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum, sem ekki greiða stimpilgjald, heldur skerðir þetta beinlínis tekjur íslenska ríkisins. Stimpilgjaldið heftir viðskipti með skip og kemur í veg fyrir aukna hagkvæmni við veiðar. Dýrara verður að draga fisk úr sjó, með tilheyrandi tekjuskerðingu fyrir bæði fyrirtæki og starfsfólk þess. Ríkissjóður fær þá eðli máls samkvæmt lægri skatttekjur. 

Tilveruréttur stimpilgjaldsins er líklega áþekkur líflausum hárlufsum sem karlmenn, sumir hverjir, þráast við að greiða yfir skalla. Af einhverjum ástæðum kýs ríkisvaldið að nostra við þessar tilgangslausu lufsur ár eftir ár – og nú í rúmt árhundrað eftir frostaveturinn mikla! Má ekki segja að þetta sé komið gott.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi 

Stikkorð: Sjávarútvegur
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.