Ég hef stundað ákveðinn samkvæmisleik síðustu ár þegar íslensk myndlist hefur borist í tal þegar ég ræði við útlendinga. Ég hef spurt þá hvað það er sem einkennir íslenska myndlist og hef fengið nokkur áhugaverð svör. Þetta er vissulega nokkuð sjálfhverf spurning – ætli ég þurfi ekki að viðurkenna það – en glöggt er gests augað og allt það.

Oftast hafa þessar samræður sprottið upp úr samræðum um einstaka myndlistarmenn. T.a.m. hef ég rætt við marga um Hrein Friðfinnsson (sem er að öllum líkindum einn okkar þekktasti myndlistarmaður á erlendri grundu), og þá fæ ég jafnan svarið: íslensk list er mínimalísk og einkennist af hugmyndum fremur en hinu myndræna.

Þegar Ragnar Kjartansson berst í tal þá fæ ég svarið að íslensk myndlist sé fyndin og beintengd tónlistarsenunni. Aðrir minnast á mikilvægi landslagsins í íslenskum listaverkum og enn aðrir hafa beinlíns ekki grænan grun um hvað það er sem einkennir íslenska myndlist fram yfir aðra.

Þegar ég fer að hugsa þetta sjálfur þá átta ég mig á því að ég hef eiginlega ekki hugmynd um hvað einkennir myndlist nokkurrar þjóðar. Ef einhver Finni myndi spyrja mig hvað einkennir finnska myndlist eða ef Breti myndi spyrja mig hvað einkennir breska myndlist þá myndi ég eiga í mestu erfiðleikum með svar og myndi að öllum líkindum svara því að hún einkennist af þeim listamönnum sem ég þekki af því þjóðerni.

Þetta ber vott um það hversu alþjóðlegur listheimurinn er orðinn, að landamæri skipta litlu máli og að listin – fremur en vegabréf listamannsins – sé það sem er lykilatriði. Þetta er gott að hafa í huga þegar velt er vöngum t.d. yfir framlagi Íslendinga til Feneyjatvíæringsins, en á næsta ári verður það þýski listamaðurinn Cristoph Büchel sem prýðir íslenska skálann í Feneyjum. Það ætti ekki að skipta neinu máli hvaðan okkar framlag er, heldur einungis hvort það sé landinu til sóma.

Pistill Kára birtist í Viðskiptablaðinu 16. apríl 2014. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .