Með hækkandi sól er gott að finna hvað léttir á líkama og sál þó að húðin sé ansi föl eftir langan vetur. Það er léttara að vakna og það er næstum því freistandi að prófa hlaupaskóna. Vissulega er ennþá bara febrúar en nú eru flestir búnir að gleyma misheppnuðu janúarátaki enda var það hundleiðinlegur tími.

Þetta var þó miserfiður tími. Á meðan sumir sveltu sig á erfiðum safakúrum stóðu aðrir í ströngu að reyna að sniðganga Kaffibarinn og bjórdælurnar. Það er mismikið á fólk lagt en áskoranir eru alltaf áskoranir. Eitt er þó ánægjulegt við að „rembast” í hollustunni og það er að það þarf ekkert að vera svo erfitt. Það er hægt að einfalda sér lífið með skyndilausnum sem eru góðar fyrir okkur. Fyrir ekki svo löngu síðan þurfti að keyra bæinn á enda til að finna hollan skyndibita eða komast í lífræna hnetusmjörið. Nú er þetta allt einfaldara. Flestar verslanir eru fullar af girnilegum heilbrigðum mat og það getur verið skemmtilegt að skoða heilsuhillurnar sem koma sífellt á óvart.

Það er líka auðvelt að velja úr veitingastöðum sem refsa ekki mjöðmunum eftir eina heimsókn. Svo er þetta ekki einu sinni vont. Þurrt og leiðinlegt salat eða niðurskorið sellerí er ekki lengur það eina á boðstólum. Girnilegir kaldir og heitir réttir með sósum sem þú getur borðað um leið og þú horfir á lípíðin leka af þér er ekki leiðinlegur kostur.

Annar kostur við þessa breytingu er að það er ekki lengur sjálfsagt að hafa girnilegan matseðil fyrir fullorðið fólk en eingöngu nagga og kokteilsósu fyrir börnin. Kannski kolkrabbapylsur líka á góðum degi. Naggar og pylsur eru alveg ágætar af og til en mikið sem það er skemmtilegt að hafa meira úrval.

Pasta, salat og kjöt er eitthvað sem börn gætu vel viljað borðað, þótt ótrúlegt sé. Hver veit nema litlu sælkerarnir gætu kunnað að meta þetta. Ég vona að sem flestir séu að prófa þessa staði og sleppi frönskunum og kokteilsósunni svona af og til. Bara af og til, njótið svo sukksins þess á milli.

Pistill Eddu birtist í Viðskiptablaðinu 27. febrúar 2014. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.