*

fimmtudagur, 18. júlí 2019
Heiðrún Lind Marteinsdót
12. janúar 2018 12:47

Ódýr orð í sáttmála?

Heiðrún Lind Marteinsdóttir spyr hvernig veruleikinn samræmist markmiðum nýundirritaðs stjórnarsáttmála.

Kristján Þór Júlíusson er sjávarútvegsráðherra í ríkisstjórn Íslands
Haraldur Guðjónsson

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð á það áhersla að tryggja þurfi „samkeppnishæfni sjávarútvegs á alþjóðlegum mörkuðum og að hann geti áfram staðið að nýsköpun og vöruþróun til að auka virði afurðanna“. Þessari áherslu ber að fagna. Á yfirstandandi fiskveiðiári má gera ráð fyrir að íslenskur sjávarútvegur greiði um 12 milljarða króna í auðlindagjald.

Engin önnur atvinnugrein sem nýtir auðlindir Íslands greiðir slíkt gjald. Í áætlaðri heildarfjárhæð veiðigjalds árið 2018 felst að 58-60% af hagnaði sjávarútvegs munu fara í tekjuskatt og veiðigjald. Gjaldið er kæfandi. Þó að sjávarauðlindin sé okkur dýrmæt, er verðmiði hennar fjarri því að samsvara tvöföldum tekjuskatti fyrirtækja og rúmlega það. Gjaldtaka úr hófi í sjávarútvegi mun fljótt hafa harkalegar afleiðingar.

Ástæðurnar eru aðallega tvær. Annars vegar er íslenskur sjávarútvegur í harðri erlendri samkeppni, jafnan við ríkisstyrktan sjávarútveg annarra ríkja. Í þeirri samkeppni er íslenskur sjávarútvegur agnarsmár og getur ekki stýrt verði. Þannig hefur íslenskur sjávarútvegur engin tök á því að hækka verð á afurðum sínum til að mæta aukinni gjaldtöku eða öðrum kostnaðarhækkunum. Hins vegar er það að nefna að vegna nýtingar á takmarkaðri auðlind, er engin leið fyrir sjávarútvegsfyrirtæki að framleiða meira og auka þannig tekjur.

Við aukna gjaldtöku eru því engir aðrir kostir í boði en að hagræða í rekstri, draga úr kostnaði. Fækkun starfsfólks, færsla veiðiheimilda á færri skip og minni fjármunir til vöruþróunar, rannsókna og mikilvægra fjárfestinga í skipum og tækjum eru augljós skref sem fyrirtæki munu væntanlega huga að. Í versta falli neyðast þau til að selja rekstur – og sú þróun er þegar sjáanleg. Er til of mikils mælst að stjórnvöld svari því hvernig þessi veruleiki samræmist áðurgreindu markmiði nýundirritaðs stjórnarsáttmála?

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is