Þrátt fyrir að eitthvað hefði betur mátt fara við sölu ríkisins á hlut sínum í Íslandsbanka á dögunum þótti hröfnunum djarft teflt í hinni pólitísku refskák þegar stjórnarandstæðingar fóru að saka Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra um lögbrot.

Samkvæmt minnisblaði lögmannsstofunnar Logos, er birt var í vikunni, halda þær ásakanir engu vatni. Hrafnarnir munu fylgjast áhugasamir með framhaldinu og viðbrögðum þeirra þingmanna sem gengu hvað lengst í þeim málflutningi.

Þá verður áhugavert að fylgjast með hvort Gallup muni í framhaldinu spyrja um málið í könnunum sínum. Sem kunnugt er þá gerði spurði Gallup þátttakendur í könnun seint í apríl hvort þeir teldu lög hefði verið brotin við söluna og samkvæmt niðurstöðunum voru 68% landsmanna á þeirri skoðun. Í því samhengi má nefna að hröfnunum þótti það áhugaverð nálgun að spyrja almenning út í lögbrot í stað þess að skera úr um það með hefðbundnum leiðum.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu.