Hrafnarnir sjá að áríðandi mál voru rædd á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Allra brýnasta málið hljóta þó að vera tillögur að tilnefningu laufabrauðsgerðar og sundlaugamenningar á skrá UNESCO, menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, yfir menningarerfðir mannkyns. Hrafnarnir eru sammála um að djúpsteikt deig og dægurhjal í heitum pottum séu meðal merkustu framlaga Íslendinga til heimsmenningarinnar. Vissulega sakna vafalaust einhverjir að kokkteilsósan verði ekki tilnefnd en sem kunnugt er þá er hún jafn íslensk norðan áttin.

Það að koma laufabrauðinu á heimsminjaskrá UNESCO væri mikið afrek og rós í hnappagat ríkisstjórnarinnar. Úrtöluraddir heyrðust þegar ákveðið var að Ísland byði sig fram til setu í framkvæmdastjórn UNESCO á sínum tíma. Bent var á að kostnaðurinn við bröltið yrði hátt í 400 milljónir þegar kjörtímabilinu lyki.

Ljóst er að áherslur ríkisstjórnarinnar koma til með að þagga í þessum röddum . Ef henni tekst ætlunarverk sitt að koma laufabrauðinu á stall með frönsku snittubrauði og flatbökunni frá Napólí svo einhver dæmi séu nefnd mun framboðið og framkvæmdastjórnarsetan reynast hverrar krónu virði. Og væntanlega verður það mikil lyftistöng fyrir íslenskan ferðamannaiðnað þegar laufabrauðið verður á hvers manns vörum innan fárra ára.