*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Kristófer Oliversson
3. janúar 2019 10:19

Staðan í dag

Meðvirkni með ólöglegri gististarfsemi hefur verið ótrúleg hér á landi.

Haraldur Guðjónsson

Ferðaþjónustan og ekki síst hótelgeirinn stendur frammi fyrir mörgum áskorunum nú eins og oftast áður. Ef við horfum á stöðuna í dag, þá stöndum við frammi fyrir því að Ísland er orðið í hugum ferðamanna eitt dýrasta land í heimi. Krónan er enn sterk þó nauðsynleg leiðrétting sé í gangi þessar vikurnar.

Flugframboð til landsins er líklega sá þáttur sem ræður mestu um vöxt og viðgang ferðaþjónustunnar í heild. Við höfum fundið fyrir því á þessu ári hversu mikilvægt það er fyrir greinina að stilla saman flugleiðir og hafa gott jafnvægi á flugi milli Evrópu og Ameríkuflugs. Áform um að Ísland verði flugmiðstöð sem tengir saman heimsálfur eru afar spennandi og takist það mun fylgja því ákveðinn stöðugleiki til lengri tíma.

Huga þarf vela að samfélagslegum þolmörkum greinarinnar. Nýir hópar s.s. Kínverjar og Indverjar eru vaxandi, en þeir eru af mörgum taldir mjög krefjandi ferðamenn og gætu jafnvel ýtt enn frekar undir óþol hjá almenningi ef mæta á þeim nýju gestum með gistingu í grónum íbúðahverfunum.

Leyfislaus og svört starfsemi í gistiþjónustu er hvergi meiri ef við horfum til þeirra landa sem við miðum okkur við og meðvirkni með ólöglegri gististarfsemi hefur verið ótrúleg hér á landi.

Gistináttaskattur var nýverið þrefaldaður og fasteignaskattar skrúfast jafnt og þétt upp og ný gjöld eru fundin upp s.s. byggingaréttargjald og innviðagjald, sem í raun hafa allt yfirbragð skattheimtu frekar en gjaldtöku.

Gistiþjónusta er afar mannaflafrek atvinnugrein og verði ábyrgðar ekki gætt við gerð kjarasamninga mun það hafa mjög neikvæð áhrif á hótel- og veitingageirann.

Það er reyndar ekki nýtt að greinin standi frammi fyrir margvíslegum áskorunum. Stóra myndin er sú að okkur hefur tekist á fáum áratugum að byggja upp enn eina stoð undir íslenskt atvinnulíf. Það eru ekki svo mörg ár síðan að hingað til lands komu aðeins rúmlega 100 þúsund ferðamenn og ferðamannatíminn var tveir mánuðir yfir hásumarið.

Rekstrarumhverfið og framtíðarhorfur

Í sögulegu samhengi er ekki hægt að segja annað en að framtíðarhorfur í hótel- og gistiþjónustu séu almennt góðar. Nýting yfir sumarmánuðina er jöfn og góð allt árið og það svæði á suðvesturhorninu sem býr við góða nýtingu yfir veturinn hefur stækkað jafnt og þétt undanfarin ár.

Samþjöppun og hagræðing í sjávarútvegi og landbúnaði hefur leitt af sér fækkun starfa út á landi. Það er því afar mikilvægt að huga að samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar ef hún á að taka við af þessum greinum. Þegar hótel er byggt verður það ákveðin kjölfesta í uppbyggingu annarrar ferðaþjónustu á viðkomandi svæði – líkt og þegar nýr togari kemur í byggðarlagið. Það er mikilvægt að átta sig á að í núverandi rekstrarumhverfi halda bankar og a.m.k. stærri hótelkeðjurnar að sér höndum við frekari uppbyggingu.

Landsbyggðin og suðvesturhornið eru nú eins og tveir heimar hvað varðar uppbyggingu í hótel- og gistiþjónustu. Við þurfum að stuðla að heilbrigðri atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni frekar en að mæta eftirspurninni eftir gistingu með íbúðaleigu, sumarhúsaleigu, camperbílum og skemmtiferðaskipum. Þetta er starfsemi sem er annaðhvort undanþegin sköttum eða finnur sér leið framhjá þeim sköttum sem hefðbundin gistiþjónusta greiðir.

Gistináttaskattur er sértækur skattur sem eykur enn frekar samkeppnisforskot aðila sem eru undanþegnir skattinum svo ekki sé talað um svarta starfsemi sem greiðir enga skatta. Meginhluti gistinátta fellur til í Reykjavík og hugmyndir sem uppi eru um að færa gistináttaskattinn til sveitarfélaga eru áhyggjuefni og munu ýta enn frekar undir pólariseringuna milli Reykjavíkur og landsbyggðarinnar. Það verður aldrei ágreiningslaust að flytja skattpeninga út á land með gamaldags millifærsluaðferðum. Hugmyndir um að gera skattinn hlutfallslegan vekja miklar áhyggjur innan hótelgeirans. Það er ekkert tilefni til að búa til nýjan veltuskatt á gistiþjónustuna.

Það má í raun líta á það sem pólitíska fyrirgreiðslu til leyfislausrar starfsemi að hún hafi fengið að vaxa og dafna árum saman án þess stjórnvöld hafi tekið þar fast á málum. Það á engin atvinnugrein að þurfa að búa við slíka samkeppni. T.d. er um helmingur framboðinna herbergja í miðborg Reykjavíkur, íbúðir sem langflestar tilheyra umfangsmiklu skuggahagkerfi. Skilningur fer sem betur fer vaxandi á þessu vandamáli og nýlega kynnti ferðamálaráðherra frumvarp, sem vekur vonir um að taka eigi á þessum málum af alvöru. Fái frumvarpið brautargengi mun það slá á þann ofsagróða sem nú er hægt að sækja með ólöglegri Airbnb útleigu.

Megináhersla FHG er að byggja upp heilbrigt rekstrarumhverfi í gistiþjónustu. Okkar helsta samkeppnisforskot í ferðaþjónustunni almennt er íslensk náttúra. Verkefnið er í raun einfalt. Það er að nýta náttúru landsins með sjálfbærum hætti okkur öllum til hagsbóta. Það gerum við með því að skapa fyrirtækjum gott rekstrarumhverfi og tryggja aðgengi að ferðamannastöðum um allt land – ekki bara á suðvesturhorninu.

Höfundur er formaður Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu (FHG).

Greinin birtist í tímariti Frjálsrar verslunar en í því var ítarleg umfjöllun um ferðaþjónustuna. Hægt er að gerast áskrifandi með því að senda póst askrift@vb.is.

Stikkorð: ferðaþjónusta
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.