Það fer varla framhjá neinum að framundan hjá okkur Íslendingum er talsverð barátta. Með tilkomu vírusar utan úr heimi er þjóðfélagið undirlagt af óvissu um hvað er framundan og nokkurrar hræðslu gætir almennt. Þetta á ekki bara við um almenning heldur hefur maður einnig skynjað hik í ráðafólki, að undanskildu þeim frábæru einstaklingum sem standa frammi fyrir okkur á daglegum blaðamannafundum Almannavarna.

Það er þó ekki vænlegt til árangurs að falla í gryfju neikvæðni þó svo ástandið sé ekki eins og best verður á kosið. Betra er að líta til leiða sem geta flýtt fyrir uppgangi í þjóðfélaginu. Við Íslendingar erum athafnafólk upp til hópa og gefumst ekki upp þó móti blási. Núna er rétt að líta til þeirra tækifæra sem geta stytt okkur leiðina úr þeim erfiðleikum sem blasa við okkur.

Það er til vitnisburðar um góða starfshætti að líta fyrst til þeirra leiða sem fela í sér minnsta fyrirhöfn miðað við hámörkun ávinnings. Í heimi stafrænnar þróunar eru þessi verkefni sem skila miklum ávinningi með lágmarks fyrirhöfn kallaðir ávextir í augnhæð (e. low hanging fruits). Það er því ekki úr vegi að líta á stöðuna með það í huga, hvernig getum við hreyft okkur hratt og skilað miklum ávinningi með lágmarks erfiði.

Um þessar mundir stendur yfir stórt og mikið útboð um þróun stafrænnar þjónustu hjá hinu opinbera. Það er yfirlýst markmið hjá hinu opinbera að frá og með 2020 skuli stafræn samskipti vera megin samskiptaleið hins opinbera við fyrirtæki og einstaklinga. Því var boðað til þessa útboðs og fjölmörg upplýsingatæknifyrirtæki taka þátt í því. Útboðið mun leiða til fjölda rammasamninga milli þessara fyrirtækja og hins opinbera. Það verður svo á grundvelli þessara rammasamninga sem unnin verða fjölmörg verkefni, stór og smá fyrir stofnanir og ráðuneyti. Hjá þessum fyrirtækjum starfar fjöldi fólks við forritun, hönnun, teymisþjálfun og margs konar sérfræðistörf sem tengjast stafrænni þróun þjónustu.

Í þessari stöðu sem nú blasir við, felast ekki bara áskoranir, heldur einnig tækifæri. Útboðsferlið hjá Stafrænu Íslandi er langt komið, það er búið að skilgreina fjölda verkefna og fyrirtæki og stofnanir bíða við rásmörkin. Við þessar aðstæður er einfaldasta leiðin fyrir ríkið að einfaldlega auka fjárframlög við þetta verkefni. Með því móti er hægt að stórauka þann fjölda verkefna sem fara af stað auk þess sem fleiri fyrirtæki fá tækifæri til að taka þátt í stafrænni umbreytingu ríkisins. Hér er því augljóslega um að ræða ávöxt í augnhæð.

Tilgangur þessarar samantektar er að skora á Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra að auka fjármagn í þessi verkefni. Það myndi skila mikilli og hraðri innspýtingu inn í stafræna þróun auk þess sem fjöldi fólks og fyrirtækja myndi njóta góðs af. Á þessum tímum verðum við að hugsa í lausnum og hér er ein á silfurfati sem kallar ekki á flóknar umræður, einungis að ákvörðun sé tekin. Við minnum svo á að (stafræn) sókn er besta vörnin.

Höfundur er sölu- og markaðsstjóri hjá Kolibri.