Á dögunum tilkynnti alþjóðlega vísitölufyrirtækið FTSE Russell um að það hefði ákveðið að færa Ísland upp í flokk nýmarkaðsríkja (e. Secondary Emerging Markets ) með haustinu. Með uppfærslunni mun íslenski markaðurinn komast á ratsjá fleiri og stærri erlendra fjárfesta sem fylgja vísitölu FTSE . Áætlað er að innflæði fjármagns inn á markaðinn muni aukast verulega í kjölfarið og því fylgja aukin tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki til öflunar fjármagns og þar af leiðandi munu fjárfestum standa frekari fjárfestingartækifæri til boða. Þessi tíðindi eru sannarlega gleðileg fyrir íslenska markaðinn og íslenskt efnahagslíf, afleiðing mikillar vinnu okkar hjá Nasdaq á Íslandi (Kauphöllin og Nasdaq verðbréfamiðstöð) ásamt viðskiptavinum, Seðlabanka Íslands, stjórnvöldum og öðrum markaðsaðilum.

Tannhjólin verða að ganga smurð

Virkur verðbréfamarkaður er mikilvægur vettvangur sem leiðir saman fjárfesta og fyrirtæki og nánast allir taka þátt í með beinum eða óbeinum hætti. Verðbréfamiðstöð er ekki það fyrsta sem fólki dettur í hug þegar það hugsar um fjárfestingar eða viðskipti með verðbréf, enda snúast viðskiptafréttir sjaldnast um hvar verðbréf eru gefin út, hvernig uppgjör á sér stað eða hverskonar ferli fer í gang við hækkun eða lækkun hlutafjár. Samt sem áður er þetta fyrirkomulag mikilvægur hluti í keðju verðbréfaviðskipta, sá hluti tannhjólsins sem markaðsaðilar verða að geta treyst á, sem tryggir að verðbréf og peningar skipti um hendur á réttan hátt, á réttum tíma og að haldið sé utan um verðbréfaeign á öruggan máta.

Fjárfestar ganga að því vísu að allt virki sem skyldi og velta líklega lítið fyrir sér hversu flókið og umfangsmikið kerfið er sem liggur þar að baki. Frá því að ákvörðun um fjárfestingu er tekin og þar til verðbréfin rata inn á vörslureikning fjárfestis á sér stað ferli „ eftirviðskipta “ (e. post - trade ) sem nær utan um allt fyrirkomulag og umgjörð þess sem á sér stað eftir að viðskiptum hefur verið komið á. Það er ekki nóg að það sé einfalt að eiga viðskipti með bréfin, það þarf líka að vera hægt að afhenda verðbréfin til kaupenda, skrá þau á reikning, tryggja að fyrirtækjaaðgerðir séu unnar á staðlaðan hátt og að afborganir, arðgreiðslur og aðrar fyrirtækjaaðgerðir skili sér með réttum hætti. Verðbréfauppgjörskerfi hvers lands fyrir sig er skilgreint sem kerfislega mikilvægur innviður á fjármálamarkaði og eru gerðar ítarlegar og samræmdar kröfur innan Evrópu varðandi rekstur og þjónustu þeirra.

Úttekt aðila líkt og FTSE á umgjörð íslensks verðbréfamarkaðar leiðir bersýnilega í ljós að skilvirkni á markaði og sterkar undirstöður skipta öllu máli; að þeim hafi verið vel fyrir komið, að um þær sé hugsað og þeim haldið við. Verðbréfamiðstöðvar spila þar veigamikið hlutverk sem grunnstykki í virkni verðbréfamarkaðar, miðlægur aðili í uppgjöri verðbréfaviðskipta og eignarskráningu verðbréfa í hverju landi fyrir sig.

Stóra myndin hefur verið máluð – íslenskur markaður á réttri leið

Umhverfi „ eftirviðskipta “ á Íslandi hefur þróast mjög hratt á undanförnum árum. Fyrsta skrefið í átt að nútímafyrirkomulagi var tekið árið 2000 þegar verðbréfamiðstöð tók til starfa á Íslandi með rafrænni útgáfu verðbréfa. Stóra stökkið var svo tekið árið 2020 þegar ný löggjöf um verðbréfamiðstöðvar tók gildi á Íslandi. Í kjölfarið var eldra fyrirkomulag verðbréfaskráningar aflagt og Nasdaq verðbréfamiðstöð innleiddi nýtt verðbréfauppgjörskerfi sem gaf viðskiptavinum tækifæri til að starfa á sambærilegan hátt við það sem þekkist í Evrópu.

Það er einkar ánægjulegt að alþjóðlega vísitölufyrirtækið FTSE Russell hefur ákveðið að færa Ísland upp í flokk nýmarkaðsríkja með haustinu. Skoðun og greining á fyrirkomulagi verðbréfauppgjörs hjá Nasdaq verðbréfamiðstöð var hluti af mati FTSE og líta má svo á að niðurstaðan feli í sér ákveðna viðurkenningu á því að vel hafi tekist til við að fjarlægja helstu hindranir sem snúa að uppgjöri og vörslu verðbréfa. Við höfum fært séríslenskt verklag yfir í ferla sem styðjast við alþjóðlega staðla sem átti þátt í þessum árangri. Vinnunni er þó ekki lokið að fullu, en stóra myndin hefur verið verið máluð og markaðurinn er betur í stakk búinn en nokkru sinni fyrr til að taka næstu skref.

Nú þegar við getum átt von á því að fleiri erlendir aðilar horfi til Íslands, munu þeir líta til umgjarðar fjármálamarkaðarins. Erlendir vörsluaðilar verðbréfa munu ganga úr skugga um að fyrirkomulag uppgjörs og frágangs viðskipta uppfylli þær gæðakröfur sem gerðar eru á alþjóðlegum mörkuðum áður en þeir taka ákvörðun um að bjóða viðskiptavinum sínum upp á aðgang að íslenska verðbréfamarkaðnum. Sem hluti af öflugri heild innan Nasdaq samstæðunnar getur Nasdaq verðbréfamiðstöð betur tryggt gæði á markaðnum og er að auki í kjörstöðu til að halda í við örar breytingar í Evrópu. Við erum tilbúin til að taka næstu nauðsynlegu skref til að tryggja áframhaldandi framþróun í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru á þeim mörkuðum sem við berum okkur saman við.

Höfundur er aðstoðarframkvæmdastjóri Nasdaq verðbréfamiðstöðva.