Nú eru sextán ár síðan Alþýðuflokkurinn gerði aðildarumsókn að ESB að kosningamáli. Þetta var 1995 og Alþýðuflokkurinn var ekki beinlínis í aðstöðu til að marka stefnu í einu eða neinu – lúskraður og lemstraður eftir að heilög Jóhanna hoppaði frá borði og stofnaði Þjóðvaka sáluga. Þar að auki tók Alþýðuflokkurinn út óvinsældir fyrstu ríkisstjórnar Davíðs (hlutskipti Framsóknar síðar) og hafði ofan í allt saman komist ítrekað í fréttir fyrir spillingarmál. Enda galt Alþýðuflokkurinn afhroð í kosningunum ´95 og var senn úr sögunni.

Í sextán ár hafa Íslendingar þrefað um Evrópusambandið, þar af fóru nokkur ár í að ræða sérstaklega hvort málið væri „á dagskrá“ eða ekki. Davíð gaf eftirminnilega yfirlýsingu um að aldrei skyldi Ísland inn í þann arma klúbb, gott ef hann lagði ekki geðheilsu sína að veði.

Mánudagurinn 27. júní 2011 var því sögulegur dagur: Formlegar viðræður hafnar við Evrópusambandið og stefnt að niðurstöðu sem fyrst. Það hillir undir að Íslendingar geti loksins, loksins afgreitt rifrildi sem staðið hefur í sextán ár, rifrildi sem hefur einkennst af því að fæstir vita hvað verið er að tala um. Jafnvel harðsvíruðustu andstæðingar ESB ættu að fagna.

Það verður að teljast meiriháttar pólitískt afrek hjá utanríkisráðherra að hafa komið málinu svo langt, með hálfan þingflokk VG einsog dautt hross í eftirdragi, þar af einn ráðherra sem vaknar á morgnana með þá köllun að eyðileggja alltsaman. Senn hlýtur að draga til enn frekari tíðinda innan VG. Ekki verður séð í fljótu bragði hvaða samleið Jón Bjarnason á með Árna Þór Sigurðssyni, formanni utanríkismálanefndar, og þeim þingmönnum VG sem af heilindum vinna samkvæmt ákvörðun Alþingis að aðildarviðræðum. Þjóðin á það skilið að þetta mál verði til lykta leitt, svo við þurfum ekki að þrasa í önnur sextán ár um hver niðurstaðan af aðildarumræðum hefði orðið. Þjóðin á líka skilið að allir – sama hvað þeim finnst um ESB – standi saman til að sem best niðurstaða fáist. Þá, en ekki fyrr, getum við öll tekið upplýsta ákvörðun um já eða nei.

Svo á þjóðin auðvitað skilið betri ráðherra á ýmsum póstum, en það er önnur saga.