Í dag eru liðin 30 ár síðan ég stóð á hlöðnu blómakeri á Lækjartorgi með risastóran Lenín-fána og veifaði. Þá var múrinn nýhruninn og þótt flestir vinstri menn hafi þarna verið hættir að kannast við þann gamla opinberlega, a.m.k. um hríð, tók ég eftir mörgum velþóknunarsvipnum sem laumað var til mín. Það ágæta fólk vissi að vísu ekki að einlægni réð ekki þessum gjörðum mínum.

Það var stráksskapur og stríðni sem réð því að við ákváðum nokkur að standa þarna undir Vladimir og tvítugum fannst mér ögrandi tilhugsun að mæta með blóðrauðan Lenín á 1. maí hátíðarhöld, nokkrum mánuðum eftir algert skipbrot hugmyndarfræðinnar sem þessi karl stóð fyrir. Mér hefur líka aldrei liðið úr minni hve hratt var stokkið okkur til varnar þegar einn fundargesta gerði sig líklegan til að gera athugasemd við þennan fánaburð.

Það var fyrir þrjátíu árum. Þarna vissum við samt að það var byrjað uppgjör við blóðugustu og ógeðfelldustu hugmyndafræði sögunnar.

Hugmyndafræði sem hefur kostað fleiri mannslíf en nokkur plága. Uppgjörinu lauk svo, að því að flestir töldu, stuttu síðar með falli Sovétríkjanna. Sósíalisminn var dauður, heildarhyggjulausnir forræðisins höfðu verið að fullu reyndar. Í kjölfarið fylgdi einhver besti tími mannskynssögunnar.

Fleiri komust úr sárri fátækt en nokkru sinni, fleiri lærðu að lesa og skrifa en nokkru sinni, ungbarnadauði snarminnkaði, lífslíkur stórjukust og byltingin sem hefur orðið í réttindum einstaklinga fór á skrið, a.m.k. á Vesturlöndum. Heimurinn er óendanlega betri nú en hann var fyrir 30 árum. Um það verður ekki deilt.

Heimurinn er betri því við stundum viðskipti, notum vísindi og frjálsa hugsun til að auðga okkur og samfélagið um leið. Ekkert land í heiminum á meira undir frjálsum viðskiptum og frelsi í samskiptum þjóða en Ísland. Samt heyrast alltaf raddir hér um að við eigum allra helst að stunda sjálfsþurftarbúskap, nú síðast í nafni matvælaöryggis. Aðrir hafa verið þess fullvissir að útlendingar myndu soga allt rafmagnið úr landinu og eftir sætum við króknandi úr kulda (já þessi líking heyrðist á fundi í fyrra). Enn aðrir vilja allra helst endurtaka átökin sem voru fyrir fall forræðishyggjunnar, því þá var orðræðan önnur og fútt í fjörinu.

Talsmenn fortíðarinnar eru flestir karlar sem eiga það sameiginlegt að vera komnir mun lengra yfir miðjan aldur en sá sem þetta skrifar. Það skiptir ekki máli hvort þeir heita Styrmir, Guðni, Kári eða Gunnar, þeir eru allir eins. Þeir horfa með eftirsjá til þess tíma þegar allt var einfaldara, þá voru tvö lið, tvö kyn, tveir litir í sjónvarpinu og einn á andlitum Íslendinga. En tími talsmanna fortíðarinnar er liðinn, sama hvaða forræðishatt þeir bera í dag.

Það voru tvær plágur sem hófust fyrir rúmum hundrað árum, önnur, sú spænska fór yfir á tveimur árum og felldi um líklega 50 milljónir manna. Hin stóð lengur en felldi tvöfalt fleiri. Um það verður heldur ekki deilt.

Til þess að komast úr kreppunni sem Covid er að senda okkur í verðum við að vera áfram talsmenn frjálsra viðskipta og stuðningsmenn hins frjálsa markaðshagkerfis, hvort sem það er þorskur, norðurljósin, rafmagn eða hugvitið sem við ætlum að selja til að bæta líf okkar.

Við þurfum að auka fjölbreytni en við getum ekki stýrt því svo auðveldlega. Við þurfum því að rýmka reglurnar og auðvelda fólki að athafna sig. Við þurfum að horfa til nýrra tækifæra og vera ófeimin að skoða nýja kosti. Og við þurfum nauðsynlega að lækka skatta. Þannig leysum við úr læðingi kraftinn í frelsinu og hugvitinu. Þannig fjölgum við körfunum sem við geymum eggin okkar í og þannig fjölgum við eggjunum.

Tími sósíalískra byltingaforingja á að vera löngu liðinn, sem betur fer, því ekki viljum við endurtaka báðar plágurnar.

Höfundur er framkvæmdastjóri og eigandi KOM.