*

sunnudagur, 16. júní 2019
Þórey S. Þórðardóttir
2. janúar 2019 10:08

Vörður á vegi lífeyrissjóðakerfisins

Vissulega er rétt að íslenskir sjóðir töpuðu miklu en það gerðu líka erlendir lífeyrissjóðir um víða veröld.

Haraldur Guðjónsson

Áramótin 2018/2019 eru mér tilefni til þess að horfa bæði fram á við og til baka. Svo vill til að einmitt um þessar mundir blasa við merkilegar, sögulegar vörður á leiðinni sem við höfum fetað með lífeyrissjóðakerfi landsmanna. Ástæða er til að staldra við þær og velta fyrir okkur hvort farsælt sé að halda áfram í meginatriðum á sömu braut eða breyta kerfinu eða jafnvel bylta því, líkt og heyrast líka raddir um í þjóðmálaumræðunni. Landssamtök lífeyrissjóða voru stofnuð 18. desember 1998 og skráð formlega 5. janúar 1999.

Fyrir voru í landinu tvenn heildarsamtök lífeyrissjóða sem þarna runnu saman, annars vegar Landssamband lífeyrissjóða og hins vegar Samband almennra lífeyrissjóða. Sameiningin var heillaskref og jók tvímælalaust slagkraft og áhrif lífeyrissjóðakerfisins bæði út á við og inn á við. Heildarsamtökin höfðu reyndar átt samskipti og samstarf í ýmsum málum fyrir sameininguna og ég nefni Hvalfjarðargöngin sérstaklega í því sambandi. Það á vel við því einmitt 1. október á árinu sem er að líða tók ríkið við mannvirkinu frá félaginu Speli sem stofnað var til að gera göngin og reka þau. Ég nefni Hvalfjarðargöngin sérstaklega til að halda til haga öflugum stuðningi stærstu lífeyrissjóðanna við framkvæmdina með skuldabréfakaupum.

Aðstandendur verkefnisins telja að þessar ákvarðanir sjóðanna hafi ráðið meiru en margan grunaði um að loksins tókst að ná fjármögnunarsamningum fyrir göngin og hefjast handa 1996. Á engan er hallað þegar fullyrt er að þar hafi í upphafi vegið þyngst áhugi og traust Þorgeirs Eyjólfssonar, formanns Landssambands lífeyrissjóða, og Hrafns Magnússonar, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra lífeyrissjóða, á verkefninu. Sá síðarnefndi varð síðar fyrsti framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða og gegndi því starfi farsællega til 2011. Síðast en ekki síst nefni ég að í maí 2019 verða liðin nákvæmlega 50 ár frá því að forystumenn heildarsamtaka atvinnurekenda og launafólks undirrituðu kjarasamninga sem mörkuðu tímamót vegna ákvæðis um aðild launafólks í verkalýðsfélögum á almennum markaði að lífeyrissjóðum. Lög um skylduaðild alls launafólks að lífeyrissjóðum voru sett nokkru síðar, á árinu 1974, og tóku líka til þeirra sem voru utan verkalýðsfélaga.

Þarna var lagður grunnur að því lífeyriskerfi landsmanna sem við búum við nú. Við munum minnast þessara tímamóta á ýmsan hátt, bæði líta um öxl til að heiðra framsýni upphafsmannanna úr röðum atvinnurekenda og launafólks en nota jafnframt tækifærið til að varpa ljósi á gangverk kerfisins og ræða styrk þess og veikleika. Lífeyrissjóðakerfið var ekki fyrirferðarmikið í samfélagsumræðunni fyrir efnahagshrunið en undanfarin ár hefur það hins vegar sætt gagnrýni, á köflum bæði harkalegri og ómaklegri. Því er til dæmis gjarnan haldið fram að kerfið sé alltof dýrt í rekstri en í alþjóðlegum samanburði stenst sú fullyrðing engan veginn.

Ég tek eftir því að í aðdraganda kjarasamninga á almennum vinnumarkaði voru hugmyndir um að stjórnarmenn lífeyrissjóða skyldu beita sér á tiltekinn hátt í fjárfestingarákvörðunum sjóðanna, til stuðnings kröfum launafólks í kjarabaráttu. Slíkt er auðvitað fjarstæða og Fjármálaeftirlitið sá ástæðu til þess að lýsa því opinberlega yfir að stjórnarmönnum lífeyrissjóða væri óheimilt að beita sér fyrir því að lífeyrissjóðir yrðu nýttir í öðrum tilgangi en þeim sem lög um sjóðina kveða á um, það er að segja að taka við iðgjöldum, ávaxta þau og greiða út lífeyri handa sjóðfélögum. Vissulega eru uppi ýmsar skoðanir og mörg tilefni til að ræða lífeyrissjóði og lífeyrisjóðakerfið, ég hef síður en svo á móti því! Þetta kerfi er langt frá því að vera föst stærð heldur er það allt í senn lifandi, þróttmikið og dýnamískt. Mikilvægt er að það þróist í takt við þarfir sjóðfélaga á hverjum tíma. Þar skiptir því sköpum fyrir velferð almennings að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld tryggi starfsöryggi sjóðanna. Á lífeyrissjóðakerfinu hafa orðið breytingar, sumar veigamiklar aðrar minni. Þær miða að því að styrkja kerfið í hlutverki sínu, gera gott betra en ekki vega að því eða rótum þess. Lífeyrissjóðir voru gagnrýndir og eru það enn fyrir að hafa tapað eignum í hruninu.

Vissulega er rétt að íslenskir sjóðir töpuðu miklu en það gerðu líka erlendir lífeyrissjóðir um víða veröld. Engu að síður er það nú staðreynd að lífeyrissjóðir á Íslandi stóðu af sér bylinn og greiddu út verðtryggðan lífeyri á sama tíma og fjármálakerfið að öðru leyti fór á hliðina. Lífeyrissjóðakerfið hefur reyndar aldrei notið þessa í umræðunni. Kannski finnst fólki að það hafi verið nánast sjálfsagður hlutur að það stæðist sviptingarnar en svo er aldeilis ekki. Núna blasir við að lífeyrissjóðakerfið hefur náð á ný þeim styrk sem það hafði fyrir hrunið og rúmlega það. Þetta eru fyrst og fremst góðar fréttir fyrir sjóðfélaga, þá sem falið hafa lífeyrissjóðum að ávaxta iðgjöldin sín og greiða út sem lífeyri síðar. Fyrir íslenskt samfélag eru þetta líka góðar fréttir. Þess vegna er bjart í kringum lífeyriskerfið okkar þegar árið 2019 gengur í garð.

Höfundur er framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is