*

föstudagur, 24. maí 2019
Innlent 24. febrúar 2018 12:34

Hagnaður póstsins nærri 80% hærri

Íslandspóstur hagnaðist um 216 milljónir á síðasta ári, meðan tekjur félagsins nema 9,2 milljörðum króna.

Ritstjórn
Ingimundur Sigurpálsson er forstjóri Íslandspósts
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Íslandspóst á síðasta ári nam 216 milljónum króna, sem er 79% aukning frá árinu 2016 þegar hagnaður félagsins nam 121 milljón króna.

Rekstrartekjur námu hins vegar rúmum 9.194 milljónum króna sem er um 8% aukning frá árinu áður. Rekstrargjöld samstæðunnar námu 8.435 milljónum króna sem er um 8% aukning frá árinu áður. EBITDA félagsins nam 759 milljónum króna, en EBITDA hlutfall var 8,3% en það var 8,5% árið áður.  

Sagt niðurgreiða samkeppnisrekstur

Hagræðing náðist á árinu í formi fækkunar dreifingardaga í sveitum en á móti kom að launakostnaður hækkaði verulega á sama tíma og dreifikerfið hélt áfram að stækka segir í fréttatilkynningu. Lesa má um þetta mál ásamt fleiri sem tengjast Íslandspósti út frá tenglum neðst í fréttinni.

Eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá heimilaði Póst- og fjarskiptastofnun félaginu einnig að fækka dreifingardögum í þéttbýli en með skilyrðum þó. Gagnrýnendur vilja meina að með þessu hafi félagið ætlað sér að niðurgreiða samkeppnisrekstri með auknu hagræði í einkarekstri fyrirtækisins.

Heildareignir tæplega 5,7 milljarðar

Handbært fé frá rekstri félagsins var 582 milljónir króna, samanborið við 501 milljón krónur árið 2016. Fjárfestingarhreyfingar námu 635 milljónum króna samanborið við 383 milljónir króna árið áður.

Heildareignir Íslandspósts voru 5.666 milljónir króna í árslok 2017. Rekstrarfjármunir eru langstærstur hluti þess eða um 3.393 milljónir króna. 

Skuldirnar rúmlega 3,1 milljarður

Skuldir Íslandspósts námu 3.136 milljónum króna í árslok 2017 og hafa hækkað lítillega á milli ára. Eigið fé nam 2.530 milljónum króna og eiginfjárhlutfall var 44% í árslok 2017 miðað við 43% árið áður.

Arðsemi eigin fjár var jákvæð um 9,4% á árinu 2017 miðað við 5,5% á árinu 2016. Veltufjárhlutfall var 1,39 í árslok 2017 samanborið við 1,56 í árslok 2016. 

Aðrar breytingar á rekstrarlegum þáttum:

  • Árituðum bréfum fækkaði um tæp 8,5% milli ára
  • 55% aukning í pakkasendingum frá útlöndum
  • 12% aukning í innlendum pakkasendingum

Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri segir árið hafa verið Íslandspósti hagfellt enda jókst hagnaður félagsins milli ára.

„Þrátt fyrir þetta var hreinn hagnaður nokkru minni en upphafleg áætlun ársins gerði ráð fyrir en það má einkum rekja til þess að það innleiðing á fækkun dreifingardaga í þéttbýli kom síðar til framkvæmda en áformað var, en hún átti að lækka kostnað við dreifingu,“ segir Ingimundur sem segir fækkun bréfa og fjölgun íbúða og fyrirtækja hafa hækkað kostnað við lögbundinn rekstur dreifikerfisins.

„Fyrir liggur að mikið tap hefur verið á samkeppnisrekstri Íslandspósts á óvirkum mörkuðum þar sem enginn hefur áhuga á að sinna dreifingu. Því tapi hefur meðal annars verið mætt með hagnaði af einkaréttarstarfseminni, eins og tilgangur einkaréttarins gerir ráð fyrir, þegar honum hefur verið til að dreifa, en einnig með hagnaði af annarri starfsemi, svo sem pakkasendingum, vöru- og þjónustusölu á pósthúsum og hagnaði af rekstri dótturfélaga, svo nokkuð sé nefnt. Fjármögnun alþjónustu, sem ekki eru rekstrarlegar forsendur fyrir, er grundvallarviðfangsefni á sviði póstþjónustunnar, sem stjórnvöld hér á landi jafnt sem annars staðar á Vesturlöndum standa og hafa staðið frammi fyrir.“ 

Ingimundur segir að nú sé til umræðu breytingar á lögum um póstþjónustu enda lögin verið óbreytt frá 2002 þrátt fyrir miklar breytingar á tækni og póstþjónustu.

„Þar verður væntanlega tekin afstaða til afnáms einkaréttar ríkisins á bréfadreifingu og þá jafnframt hvernig standa eigi undir kostnaði við þjónustu, þar sem tekjur duga ekki til,“ segir Ingimundur.  

„Ýmsar leiðir eru færar í þeim efnum, en framkvæmd þeirra er ekki á forræði stjórnenda Íslandspósts;  hún er pólitísks eðlis og því verður að taka ákvörðun í þeim efnum á vettvangi stjórnmálanna.“

Um Íslandspóst

Íslandspóstur hf. tók til starfa sem sjálfstætt hlutafélag þann 1. janúar 1998.  Fyrirtækið fagnaði því 20 ára afmæli þann 1. janúar 2018.  Við stofnun tók Íslandspóstur yfir póstrekstur Pósts og síma og byggir sú þjónusta á rúmlega 240 ára sögu póstþjónustunnar á Íslandi.  

Fleiri fréttir um Íslandspóst:

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim