Katalónska knattspyrnufélagið Barcelona hagnaðist um 98 milljónir evra á síðasta rekstrarári, eða sem nemur 13,7 milljörðum króna. Þetta kemur fram í grein The Athletic.

Hagnaðinn má rekja til fyrstu efnahagslegu aðgerðarinnar (e. economic lever) sem félagið réðst í, sem fólst í sölu á 10% hlut í sjónvarpsréttindum að leikjum liðsins í La Liga til næstu 25 ára. Kaupandinn var alþjóðlega fjárfestingafélagið Sixth Street Partners og hljóðaði kaupverðið upp á 267 milljónir evra, eða sem nemur 37 milljörðum króna.

Rekstrartekjur félagsins námu rúmum milljarði evra og rekstrargjöld 856 milljónum evra. Markmið félagsins fyrir næsta rekstrarár 2022-2023 er að veltan aukist um rúm 40% og verði 1,45 milljarðar evra. Þá ætlar félagið sér að hagnast um 275 milljónir evra á árinu.

Félagið hefur verið í miklum fjárhagsvandræðum á undanförnum árum og hlaðið upp skuldum bæði til skamms og langs tíma. Þá hefur félagið ráðist í efnahagslegar aðgerðir, eða svokölluð „economic levers“ til að fá innspýtingu fjármagns.

Oftar en ekki hafa aðgerðirnar falið í sér eignasölur og síðast en ekki síst sölur á framtíðartekjum, til að mynda á sjónvarpsréttindum í framtíðinni.