Fjöldi minjagripa sem tengjast Bítlunum verða seldir á NFT myndformi á rafrænu uppboði á næstunni. Þar á meðal eru handskrifuð blöð Paul McCartney og flíkur sem John Lennon klæddist.

Julian Lennon, sonur John Lennon, hefur tilkynnt að rafrænt uppboð á hlutunum verði haldið þann 7. febrúar, en nú þegar er hægt að skrá sig í uppboðið og gera tilboð í hlutina. Hlutirnir verða seldir sem „Non-Fungible Token" (NFT) á myndformi og talar Julian, sonur John Lennon, yfir myndirnar, að því er kemur fram í frétt hjá Bloomberg .

NFT er eins konar stafrænt skírteini sem staðfestir eignarhald á tilteknum hlut. Skírteinið er einstakt sem þýðir að ekkert getur komið í stað eintaksins, það er „non-fungible".

Gibson gítarar til sölu á NFT myndformi

Hlutirnir sem eru meðal annars til sölu á NFT myndformi eru Gibson gítarar sem John Lennon gaf syni sínum og Magical Mystery Afghan jakkinn hans John. Jafnframt er NFT myndform til sölu af svörtu flíkinni sem John klæddist í kvikmyndinni Help! og handskrifað blað Paul McCartney um uppsetningu á laginu Hey Jude.

Þess má geta að Paul samdi lagið upprunalega til að hughreysta Julian Lennon í kjölfar skilnaðar foreldra hans, John Lennon og Cynthiu Lennon, en lagið bar upprunalega nafnið Hey Julian.

Hluti hagnaðarins af uppboðinu mun renna til samtakanna White Feather sem Julian Lennon heldur utan um. Uppboðið er haldið í samstarfi við Julien's Auctions og YellowHeart NFT.