Hollywoodstjarnan og leikarinn Leonardo DiCaprio hefur fjárfest í kampavínsframleiðandanum Telmont Champagne. Umræddur framleiðandi leggur mikið upp úr sjálfbærni og er með metnaðarfull markmið um framleiða 100% lífrænt kampavín. Wine Spectator greinir frá.

DiCaprio er því nú orðinn einn af hluthöfum vínhússins en meirihlutaeiganda þess er Rémy Cointreau. Telmont Champagne á langa sögu að baki og var stofnað árið 1912 undir nafninu J. de Telmont. Vínhúsið bar það nafn í ríflega öld, eða allt þar til í fyrra er nafni vínhússins var breytt í Telmont Champagne.

Sjálfbærnivegferð vínhússins hófst árið 2017 og hefur það heitið að árið 2025 verði framleiðsluferli þess að öllu leyti sjálfbært.

Í fréttatilkynningu þar sem greint var frá innkomu DiCaprio í hluthafahópinn lét leikarinn hafa eftir sér að sjálfbærnimarkmið vínhússins hafi leikið lykilhlutverk í þeirri ákvörðun að leggja fé í rekstur þess.