Bresku tískufrumkvöðlarnir Tom og Ruth Chapman hafa selt glæsihýsið sitt í Beverly Hills á 35,25 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur 5.125 milljónum króna. Húsið var upphaflega sett á 42 milljónir dala fyrr í sumar, og er kaupverðið því 16% lægra en ásett verð.

Húsið er tæplega 580 fermetrar að stærð, sem gerir fermetraverð upp á 8,85 milljónir króna. Húsið er staðsett í Trousdale Estates lúxushverfinu í Beverly Hills og er talið vera eitt allra dýrasta hús í sögu hverfisins, að því er kemur fram í grein Wall Street Journal. Seljendurnir, þau Ruth og Tom, keyptu húsið árið 2017 á 24 milljónir dala. Sama ár höfðu þau selt fatafyrirtækið sitt Matchesfashion.com.

Húsið var byggt á sjöunda áratugnum en hefur verið endurbætt talsvert síðan þá. Húsið stendur á tvö þúsund fermetra lóð þar sem má meðal annars finna bílskúr sem rúmar þrjá bíla, sundlaug og sundlaugarhús sem má einnig nýta sem gestahús.

Trousdale Estates hefur lengi vel verið meðal vinælustu hverfa í Los Angeles fyrir ríka og fræga fólkið, samkvæmt umfjöllun WSJ. Fyrr á árinu seldi grínistinn David Spade húsið sitt í hverfinu á 19,5 milljónir dala.