Áhugi landsmanna á gönguskíðaíþróttinni hefur stóraukist undanfarin ár og ekki dró úr áhuganum þegar skíðalyftur voru lokaðar vegna veirufaraldursins. Ásókn í byrjendanámskeið vítt og breitt um landið hefur enda verið gríðarlega mikil. Fjallað er um málið í sérblaðinu Ferðalög & útivist , sem fylgdi Viðskiptablaðinu og er opið öllum til lestrar.

Gönguskíði eru einstaklega góð alhliða hreyfing. Á þeim getur hvert og eitt farið á sínum eigin hraða auk þess sem hreyfingar eru einstaklega mjúkar á skíðunum og því laus við högg á liði sem fylgja mörgum öðrum íþróttum. Íþróttin hentar þannig mjög fjölbreyttum hópi fólks.

Brautarskíðin vinsælust

Flestir byrjendur stíga sín fyrstu skref í íþróttinni á brautargönguskíðum, ætluðum til notkunar í spori sem troðið er í snjó. Algengt er að byrjendur velji sér skinnskíði, en skinnið varnar því að skíðin renni aftur á bak í brekkum auk þess sem þau fara almennt ekki jafn hratt og skinnlaus áburðarskíði.

Ekki þarf að bera jafn oft á skinnskíði og skinnlaus áburðarskíði, en þó er mikilvægt að hafa í huga að slíkt þarf að gera af og til yfir veturinn. Sum gera slíkt sjálf en þá þjónustu er jafnframt hægt að kaupa.

Áburðarskíðin hafa verið vinsælli meðal vanara fólks, en þau þarf að bera á fyrir hverja ferð og þá með réttum áburði miðað við aðstæður í braut hverju sinni.

Skautað á skíðum

Á níunda áratugnum ruddi sér til rúms ný gönguskíðatækni, skíðaskaut, þar sem gönguskíðaiðkendur hófu að ýta sér áfram á skíðunum líkt og á skautum. Þannig reyndist mögulegt að ná meiri hraða en með klassískri tækni í sporinu og varð aðferðin því mjög umdeild í keppnismótum, enda að margra mati hreint ekki um sömu íþrótt að ræða.

Innan fárra ára var því farið að skipta gönguskíðakeppnum upp í klassíska aðferð annars vegar, þar sem skaut var alfarið bannað, og frjálsa aðferð hins vegar, þar sem hvort tveggja var leyfilegt.

Í dag er hægt að fá sérstök skautaskíði sem eru hönnuð gagngert fyrir þessa tækni og við flestar brautir er troðið svæði til hliðar við klassíska sporið sem hentar skauti og ferðaskíðum (utanbrautarskíðum).

Jöklaferðir á gönguskíðum

Gönguskíðaiðkun þarf ekki að vera bundin við brautir og troðnar slóðir. Sum hver kjósa heldur, eða í bland við brautarskíðin, að fara ótroðnar slóðir á svokölluðum ferðaskíðum, sem sum hver kalla utanbrautarskíði.

Ferðaskíðin eru yfirleitt nokkuð breiðari en brautarskíðin og henta því ekki í spori ætluðum brautarskíðum, enda skemma þau sporið. Á þessu er þó sú undantekning að hægt er að fá ferðaskíði í sömu breidd og brautarskíði, en þau koma þó seint í staðinn fyrir brautarskíðin sem eru hönnuð sérstaklega fyrir sporið.

Ferðaskíðin opna aftur á móti nýja vídd fyrir gönguskíðaiðkendur, enda er hægt að skíða á þeim nánast hvar sem snjór er til staðar og eru þau til að mynda mjög vinsæll ferðamáti um jökla og hálendi.

Rétt er þó að benda á að ferðaskíði henta almennt ekki á fjöllum með miklum bratta, enda erfiðara að stýra þeim en til að mynda fjallaskíðum, sem henta betur við slíkar aðstæður.

Það er ekki þar með sagt að þau séu ætluð til notkunar á eintómu sléttlendi, enda er hægt að fá undir þau skinn sem auðvelda ferð um hóla og hæðir. Ekki er óalgengt að fólk fari að sumri til í jöklaferðir á ferðaskíðum og er framboð skipulagðra ferða í þeim dúr sífellt að aukast.

Nánar er fjallað um málið í Útivist & ferðalög, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Hægt er að nálgast blaðið hér .