Gunnar Nelson er kominn með andstæðing fyrir bardagakvöld UFC í London sem fer fram 19. mars næstkomandi. Andstæðingur hans er 39 ára gamli Brasilíumaðurinn Cláudio Silva. Þetta herma heimildir fjölmiðilsins MMA Junkie en Silva hefur einnig sjálfur greint frá bardaganum á Instagram síðu sinni. MMA Fréttir sagði fyrstur íslenskra fjölmiðla frá tíðindunum.

Gunnar, sem tilkynnti í síðustu viku um nýjan fimm bardaga samning við UFC bardagasamtökin, hefur lýst yfir áhuga á að keppa á bardagakvöldi UFC í London og virðist nú vera að fá ósk sína uppfyllta. UFC á þó enn eftir að staðfesta bardagann.

Cláudio Silva hefur verið samningsbundinn UFC frá árinu 2014. Á þeim tíma hefur hann keppt sjö bardaga, þar af vann hann fyrstu fimm en hefur síðan tapað tveimur í röð, síðast í maí 2021.

Síðasti bardagi Gunnars var í september 2019 þegar hann tapaði fyrir öðrum Brasilíumanni að nafni Gilbert Burns eftir dómaraákvörðun. Fyrr um árið tapaði hann fyrir Englendingnum Leon Edwards, einnig eftir dómaraákvörðun. Burns og Edwards hefur báðum farnast vel frá bardögum sínum við Gunnar og eru þeir meðal fimm efstu á styrkleikalista UFC í veltivigtinni. Síðasti sigur Gunnars var gegn Alex Oliveira í desember 2018.

Gunnar greindi nýlega frá því í viðtali við Ariel Helwani, þekktan fjölmiðlamann í heimi blandaðra bardagaíþrótta, að hann hafi verið að fást við mikil meiðsli að undanförnu. Gunnar sagðist hafa verið kominn í gott stand en meiddist svo aftur í glímu við Hafþór Júlíus Björnsson aflraunamann í maí síðastliðnum.