Þorri Hringsson myndlistarmaður hefur um árabil skrifað um vín. Á Facebook síðunni Víngarðinum birtir hann reglulega víndóma. Þorri kemur víða við í sínu vali. Hann byrjar á serríi frá Andalúsíu og því næst velur hann framandi hvítvín frá Baskalandi. Þar sem rauðvín eru á gjarnan á borðum yfir hátíðarnar þá bendir hann lesendum á umtalað rauðvín frá Rioja , sem loks er fáanlegt hér á landi og að lokum klassískt og margslungið vín frá Frakklandi.

La Guita Manzanilla

Um hátíðarnar verður að hafa góðan fordrykk við höndina og að kampavíni undanskildu þá er eiginlega ekkert betra en þurrt sérrí. Manzanilla er Fino -sérrí frá bænum Sanlúcar de Barrameda og býr yfir öllu því besta sem góður fordrykkur þarf að búa yfir. La Guita er skraufaþurrt en ákaflega mjúkt og hefur þessa sérstæðu og oxuðu tóna sem Fino -sérrí er þekkt fyrir en þarna má líka rekast á flóknar bragðglefsur af þurrkuðum ávöxtum, hnetum, grænum eplum, ferskum sveppum og söltum steinefnum. Manzanilla er frábær fordrykkur en það er líka sérlega heppilegur förunautur með allskonar mat, einkum bragðmiklum forréttum sem önnur vín ráða ekki við.  Prófið það td með spænskri skinku eða djúpsteiktum krókettum , sú samsetning er óviðjafnanleg.

Kr. 3.650


Gorka Izagirre G22 2017

Fyrir þá sem telja sig hafa prófað allt eða eru orðnir hundleiðir á Chardonnay þá ættu þeir að reyna vín frá Baskalandi úr þrúgu sem afar fáir hafa reynt.  Víngerðin Bodegas Gorka Izagirre er rétt sunnan við borgina Bilbao og það er hin staðbundna þrúga Hondarrabi Zerratia sem hér leikur aðalhlutverkið í mögnuðu hvítvíni sem á enga sína líka.  Það býr yfir þéttum og kjarnmiklum ávexti þar sem finna má sæta sítrustóna, þurrkaðar apríkósur, hunang, pipar, kóreander , soðin epli og leirkennda steinefnatóna.  Og það er ákaflega langt og inniheldur afar ferska og flotta sýru.  Prófið það með allskonar sjávarréttum, forréttum eða þá ljósu fuglakjöti.  Þess má geta að þetta vín lenti í áttunda sæti yfir bestu hvítvín Spánar núna í vor svo það hljóta að teljast góð meðmæli.

Kr. 3.190

Predicador 2018

Það er mikið gleðiefni að nú skuli vera hægt að versla hér á landi eitt af umtalaðri rauðvínum Spánar síðustu ára frá víngerðar-goðsögninni Benjamin Romeo . Predicador er býsna nútímalegt og sprikklandi ferskt Rioja -vín sem fetar hinn gullna meðalveg á milli hins hefðbundna og hins nýja stíls.  Það er dimmt og þétt og þarna blandast saman sprittlegin kirsuber, kókos, kaffibúðingur, sólberjalíkjör , plómukompott , dökkt súkkulaði og leirkenndir jarðefnatónar en utanum allt þetta er svo voldug eik með sína kremuðu vanillutóna og tannínin eru mikil en mjúk.  Þetta er stórt vín á alla kannta en það merkilega er, með vín úr Tempranillo , að þau eru mun ljúfari með matnum en ætla mætti. Predicador er frábær með öllu rauðu kjöti, og þá sérstaklega lambi og nauti, en ekki síðra með svíni og jafnvel erfiðum mat einsog hamborgarhrygg.

Kr. 4.999

Guigal Côte - Rôtie 2017

Vilji einhverjir klassískt og margslungið rauðvín frá Rhone um hátíðarnar er óhætt að mæla með Côte - Rôtie frá Guigal , en sú fjölskylda er fyrir löngu búin að sanna að þar gera menn einhver bestu rauðvín Frakklands.  Þetta vín er að stærstum hluta úr þrúgunni Syrah af hinum snarbröttu hlíðum ofan við bæinn Ampuis en einnig er í því örlítið af hinni mjúku og hvítu þrúgu Viognier sem hefðbundið er að blanda út í.  Það er komið með örlítinn þroska en er fyrst og fremst margslungið og upprunalegt.  Þarna má finna kirsuber, sæt dökk ber, þurrkaða ávexti, lyng, kakó, jarðarberjasultu, pipar og eitthvað sem minnir á gerjaðan heybagga.  Langvarandi og ferskt rauðvín sem er fullkomið með allskonar villibráð, rjúpu, hreindýri eða þá villigæs.

Kr. 8.998

Fjallað er um málið í Áramótum , tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem var að koma út. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af tímaritinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .